Þriðja barnamyndahátíðin tileinkuð friði

barnamyndahátíð 2015Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram í Bíó Paradís dagana 19.-29. mars. Þetta er í þriðja skiptið sem hátíðin er haldin. Sýndar verða verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum sem og klassískar íslenskar barnamyndir. Næsta kynslóð kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndaunnenda munu hafa tækifæri á að kynnast hvernig kvikmyndir og teiknimyndir verða til, upplifa leiklist fyrir kvikmyndir ásamt því að njóta fjölbreyttra alþjóðlegra barnakvikmynda.

Þema hátíðarinnar að þessu sinni er tileinkað friði og munu myndirnar á hátíðinni endurspegla mikilvæg málefni sem tengjast því efni. Þá fá gestir að kynnast hugmyndafræði eins og fjölmenningu, kynvitund, líkamsvirðingu, skapandi og gagnrýnni hugsun.

Opnunarmynd hátíðarinnar í fyrra var Antboy og að þessu sinni er því fylgt eftir með framhaldsmyndinni Antboy: Rauða refsinornin. Meðal annara kvikmynda sem sýndar verða eru nýjar danskar teiknimyndir um Gúmmí Tarsan og Ottó nashyrning, Strákurinn og heimurinn sem er brasilísk verðlaunamynd fyrir þau yngstu en myndin er ekki með tali og hentar því öllum aldurshópum. Myndin Prins verður sýnd á hátíðinni,glæný hollensk unglingamynd þar sem ástir, örlög og Lamborghini bílar eru í aðalhlutverki.


Bæði íslenskar og erlendar klassískar myndir verða í sýningum en meðal þeirra eru Hagamús: með lífið í lúkunum, eftir Þorfinn Guðnason, The Wizard of Oz frá 1939, The Neverending Story og franska myndin Þríburarnir frá Belleville.

Krakkarnir fá tækifæri á að kjósa mynd á hátíðinni til áhorfendaverðlauna og mun sigurmyndin fara í hringferð um landið eftir hátíðina.

Sjá nánar hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR