Friðrik Erlingsson er meðal þeirra sem tilnefndir eru til Menningarverðlauna DV í ár fyrir kvikmyndir. Hann fær tilnefninguna „fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu“ eins og segir í umsögn dómefndar og er þar vísað í pistla hans um leikið innlent sjónvarpsefni sem birtust hér á Klapptré og vöktu mikla athygli síðasta haust.
Skoða má pistlana og viðbrögðin við þeim hér.
Friðrik er tilnefndur ásamt bróður sínum Benedikt Erlingssyni sem einnig hefur tjáð sig kröftuglega um stöðu kvikmyndamála.
Í umsögn dómnefndar segir:
Benedikt Erlingsson og Friðrik Erlingsson fá tilnefningu fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu á Íslandi. Þeir stigu nýlega báðir fram á opinberum vettvangi með umdeildar skoðanir varðandi stöðu kvikmyndalistarinnar hérlendis. Friðrik skrifaði greinar þar sem hann gagnrýndi efnistök íslensks sjónvarpsefnis og ákvarðanatöku varðandi framleiðslu þess. Hann bendir á að margt beri að endurskoða, því hér sé aldeilis efniviður til staðar en að oft sé verið að eltast við erlendar fyrirmyndir sem eigi illa heima í íslensku samhengi. Benedikt gagnrýndi ríkisstjórn Íslands fyrir niðurskurð til Kvikmyndasjóðs í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs 2014. Hann biðlaði til áhorfenda í salnum um að ræða við íslenska ráðamenn sem viðstaddir voru og útskýra fyrir þeim hversu mikilvæg kvikmyndagerð væri fyrir menningu okkar. Friðrik og Benedikt reyndu hvor með sínum hætti að stuðla að uppbyggilegri gagnrýni sem nauðsynleg er, eigi kvikmyndamenning að geta dafnað hérlendis.
Aðrir sem fengu tilnefningu í flokki kvikmynda eru:
- Þorsteinn Bachmann fyrir leik í Vonarstræti.
- Heimildamyndin Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg.
- Skjaldborg hátíð íslenskra heimildamynda.
- Heimildamyndin Höggið eftir Ágústu Einarsdóttur.
Í dómnefnd sitja: Vera Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson og Ísold Uggadóttir.
Sjá nánar hér: Tilnefningar til Menningarverðlauna DV 2014 – Fyrri hluti