Sex myndir á Þýskum dögum í Bíó Paradís frá 12. mars

Úr Stations of the Cross sem sýnd er á Þýskum dögum í Bíó Paradís.
Úr Stations of the Cross sem sýnd er á Þýskum dögum í Bíó Paradís.

Ekkert lát er þessa dagana á hverskyns kvikmyndaviðburðum. Á fimmtudag hefjast hinir árlegu Þýsku kvikmyndadagar í Bíó Paradís í samvinnu við Goethe Institut Danmörku og Þýska sendiráðið á Íslandi. Sýndar verða sex nýjar og spennandi myndir.

Dagarnir hefjast með hinni margverðlaunuðu Beloved Sisters sem er byggð á ævi þýska ljóðskáldsins Friedrich Schiller (1759 – 1805) og löngu sambandi hans við tvær systur, Caroline og Charlotte von Lengefeld en hann kvæntist á endanum annarri þeirra, Charlotte. Myndin var tilnefnd til Gullbjörnsins á kvikmyndahátíðinni Berlinale þar sem hún var frumsýnd og var framlag Þýskalands sem besta erlenda kvikmyndin til Óskarsverðlaunanna.

Auk hennar verða á dagskrá í Bíó Paradís þekktar verðlaunamyndir sem fjalla m.a. um flótta frá austri til vesturs (Westen), óvenjulegri ástarsögu húshjálpar þar sem hin unga leikkona Vicky Krieps á stjörnuleik í Das Zimmermädchen Lynn, sögu tveggja ungra drengja þar sem varpað er ljósi á harðan veruleika þeirra á viðkvæman og áhugaverðan hátt í Jack og austurrísks – þýsks vestra í leikstjórn Andreas Prochaska, The Dark Valley sem var framlag Austurríkis til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin.

Allar myndirnar eru sýndar með enskum texta.

Nánar má fræðast um myndirnar hér: Þýskir kvikmyndadagar – Bíó Paradís.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR