Ein vinsælasta mynd Finna frá upphafi, The Grump eða Nöldurseggurinn, verður frumsýnd með viðhöfn í Háskólabíói næsta fimmtudag og verða leikstjóri hennar, Dome Karukoski, og höfundur bókanna sem myndin er byggð á, Tuomas Kyrö, viðstaddir.
Í tilkynningu frá Græna ljósinu sem sýnir myndina segir að heyrst hafi að Karukoski og Kyrö ætli að hefja skrif á handriti framhaldsmyndar The Grump hér á landi.
Hilmar Örn Hilmarsson samdi tónlistina við The Grump og Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur.
Nöldurseggurinn sló öll aðsóknarmet á síðasta ári í heimalandi sínu. Í myndinni fá áhorfendur að fylgjast með sauðþráum og íhaldssömum bónda á níræðisaldri sem hefur ævaforn gildi í hávegum. Samkvæmt honum voru börn ekki frek í gamla daga og fólk eyddi aldrei peningunum sínum í vitleysu!
Þegar bóndanum mislíkar eitthvað lætur hann það bitna á öllum þeim sem á vegi hans verða, eins og kemur bersýnilega í ljós þegar hann gengur berserksgang, neyddur til að flytja með sitt hafurtask til sonar síns og yfirþyrmandi tengdadóttur í borginni. Tengdadóttirin Liia er framakona sem ansar ekki nafninu „litla fröken“ og lætur ekki segja sér að konur eigi ekki að aka bílum. Jafnframt á sá gamli bágt með að fóta sig á nútímalegu heimili ungu hjónanna og sættir sig illa við stöðugt ónæðið frá farsímum þeirra.