Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi Víðsjár RÚV fjallar um myndirnar Blowfly Park, Ida, The Trip to Italy og A Girl Walks Home At Night sem sýndar eru á kvikmyndahátíðinni Stockfish.
Stockfish, evrópsk kvikmyndahátíð Bíó Paradísar, hefst í dag og stendur yfir til fyrsta mars. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin, en hún byggir þó á leifum Kvikmyndahátíðar Reykjavíkur, sem var fyrst haldin 1978, síðast árið 2001, og er hugsuð sem nokkurs konar endurvakning á henni. Ég mun vera með sérstök innslög um hátíðina á meðan á henni stendur og byrja í dag á því að ræða nokkrar myndir sem ég fékk að kíkja á síðustu daga, fjórar myndir frá fjórum löndum: Blowfly Park, Ida, The Trip to Italy og A Girl Walks Home At Night.
Hefjum leikinn hjá opnunarmyndinni Blowfly Park, eða Flugnagarðinum, sænskri mynd í leikstjórn Jens Östbergs, sem er jafnframt gestur hátíðarinnar ásamt aðalleikaranum Sverri Guðnasyni. Flugnagarðurinn er í grunninn frekar hefðbundin saga um norræna angist, myrk, hæg og nokkuð þunglamaleg, en fer áhugaverða leið að efninu og kemur á óvart að áhorfi loknu. Hún hefst hjá Alex, sem stendur drukkinn við lestarteina og er greinilega þjáður og erfiður karakter. Hann hittir félaga sinn, Kristian, sem kemur honum fullum heim til konu og barns. Kristian kveður, en mætir Alex aftur fyrir utan húsið. Alex er aggressívur, vill sýna vini sínum refagreni úti í skógi, og þegar Kristian neitar að fylgja vill Alex fara að slást. Stemningin á milli þeirra er greinilega flókin og rafmögnuð, jafnvel ofbeldisfull. En við fáum ekki að sjá hvað gerist. Daginn eftir er Alex horfinn og Kristian tekinn að haga sér undarlega. Smátt og smátt verður hegðun hans þeim mun ruglaðri eftir því sem líður á myndina. Kristian er greinilega truflaður, kemst upp á kant við hóp unglinga, og á tímabili virðist hann ætla að verða nokkurs konar sjálfskipaður lögreglumaður sem ræðst gegn því sem hann þolir ekki á götum úti. Hann er týndur og leitandi, mögulega hættulegur, og það sem er heillandi við Flugnagarðinn er að við erum aldrei almennilega viss hvert sagan stefnir eða hvað er í gangi með aðalpersónuna okkar. Leikstjórinn er ekki hræddur við að setja á svið senur sem virka hálfkláraðar, þræði sem stefna ekki endilega í neina ákveðna átt, eða skilja eftir eyður þar sem flestir myndu keppast við að útskýra hlutina. Þetta gerir að verkum að myndin verður dálítið erfið áhorfs, en eftir því sem á líður taka áhrifin að safnast saman, og þegar yfir lýkur er upplifunin nokkuð sérstök. Við kynnumst persónu Kristians gloppótt, vitum lítið sem ekkert um fortíð hans og vinarins Alex, eða konunnar og barnsins, og myndin þannig byggð upp í kringum eyður sem við megum geta í. Kunnuglegt söguefni verður því áhugavert fyrir vikið og leikstjórinn virðist meðvitað vinna með væntingar áhorfenda um framrás sögunnar, t.d. hvað varðar aukasögur tengdar unglingahópnum sem Kristian fer nánast í stríð við, og síðan væntingar tengdar leikaranum Peter Andersson, sem flestir kannast við úr Millennium-þríleiknum. Kjarninn íFlugnagarðinum er þó leikarinn Sverrir Guðnason, sem þarf að kljást við ansi strembið hlutverk. Það er eflaust minna mál að túlka einhvern sem missir alveg stjórn á sér, heldur en þann sem daðrar stöðugt við það og dansar á línunni, og enn fremur þarf hann að halda einhvers konar tengingu við áhorfendur, sem fá varla neinar bakgrunnsupplýsingar um persónuna. Sverrir stendur sig líka stórvel sem miðpunkturinn og fékk m.a. verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Thessaloniki fyrir frammistöðu sína. Þess má geta að Sverrir og leikstjórinn Jens Östberg munu svara spurningum áhorfenda á sérstakri sýningu annað kvöld.
Stökkvum þá frá drungalegu myrkri Svíþjóðar yfir í sólina og hitann á Ítalíu, þar sem bresku grínistarnir Steve Coogan og Rob Brydon halda í annað eftirminnilegt matarferðalag, í kvikmyndinniThe Trip to Italy, sem er sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar The Trip frá 2010, en báðar myndir komu upphaflega út í sex þáttum sem sjónvarpsseríur en voru síðar meir snyrtar niður í kvikmyndalengd og gefnar út sem slíkar. The Trip to Italy er leikstýrt af Michael Winterbottom og fylgir sama mynstri og forverinn. Grínistarnir eru sendir sem nokkurs konar andstæðuteymi að gagnrýna veitingastaði og myndin byggir nær alfarið á spuna, rifrildum og fyndnum samræðum, enda bæði Coogan og Brydon stórskemmtilegir grínistar og hrein nautn að hlusta á þá röfla. The Trip er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég beið spenntur eftir framhaldinu, sem er að miklu leyti meira af því sama og áður, og í raun ekkert hægt að kvarta yfir því. Líklega á The Trip to Italy helst erindi fyrir þá sem höfðu gaman af fyrra ferðalaginu þeirra, og ég mæli með að sjá gömlu The Trip áður en haldið er suður á bóginn, en annars stendur Ítalíuferðin alveg á eigin fótum, þannig séð, og er fyrst og fremst nokkuð sjaldséð dæmi um að stundum er hægt að endurtaka sömu formúluna og gera það vel.
Þá yfir til Idu, pólskrar myndar í leikstjórn Pawels Pawlikowskis, sem hefur verið í sýningum hjá Bíó Paradís upp á síðkastið, en er engu að síður skilgreind sem hluti af hátíðardagskránni, og er enn fremur ein þeirra mynda sem keppa um Óskarinn fyrir bestu erlendu mynd nú um helgina, en tvær aðrar úr þeim hópi eru líka á Stockfish hátíðinni – Tangerines og Wild Tales – sem ég á þó enn eftir að sjá. Ida er gullfalleg, svart-hvít kvikmynd sem sækir í brunn þögullar kvikmyndagerðar, þótt hún sé fjarri því að vera þögul. Ida hefur hlotið sérstaka athygli vegna myndatökunnar, sem minnir á stíl gamalla risa á borð við Carl Theodor Dreyer, þar sem vélin hreyfist lítið sem ekkert og hvert einasta skot snýst um að skapa grípandi ramma með ákveðinni myndbyggingu. Ida er öll skotin í hlutfallinu 4:3, þ.e. gamla ferkantaða kvikmyndaforminu, ólíkt breiðtjaldsforminu sem nú er vaninn, bæði í bío og í sjónvarpi, og myndin virkar á köflum eins og hún hafi verið gerð á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hún er sannarlega þess virði að sjá einfaldlega upp á listræn stílbrögð, kvikmyndatöku og hið svokallaða mise en scène, eða allt sem gerist innan rammabyggingarinnar, en fyrir utan það er Idalíka vel skrifað og leikið drama um leit ungrar konu að fjölskyldu sinni á sjöunda áratugnum í Póllandi. Ida sjálft er munaðarleysingi sem hefur verið alin upp sem nunna í klaustri og áður en hún sver eið sinn við Guð er henni skipað að leita uppi ættingja sinn, eldri frænku, til að kynnast lífinu utan klausturins og fræðast um ræturnar. Ida kemst að því að foreldrar hennar voru gyðingar og fórnarlömb ofsóknanna í seinni heimsstyrjöld og fer í leit að gröfum þeirra. Myndin er vegamynd og segir nokkrar sögur í einu: sögu Idu í leit að foreldrunum, sögu frænkunnar að gera upp fortíðina, og ekki síst sögu nunnunnar sem kemst í kynni við umheiminn og allt sem hann hefur upp á að bjóða. Ida er bæði þung og flókin saga um eftirmála ofbeldis og ofsókna, en líka fallegur óður til lífsins, listarinnar og sérstaklega tónlistar sem Ida kynnist í gegnum ungan djassara sem vekur forvitni hennar. Myndin er listilega vel gerð, svo maður gleymir sér alveg í hverjum einasta ramma, og fullkomið dæmi um hvernig hægt er að sækja í brunn eldri hefða og stílbragða til að búa til áhugaverða og nútímalega kvikmynd.
Það sama má segja um A Girl Walks Home Alone At Night, eða Stúlka gengur ein heim um nótt, afar sérstakt og frumlegt hryllingsævintýri sem blandar saman áhrifum úr ólíkum áttum, en gerir það á ferskan og hressandi hátt, og er enn fremur líka tekin í svart-hvítu. Íransk-bandarískur vampíruvestri er lýsing sem grípur athygli, enda hefur A Girl Walks Home Alone At Night skapað mikið umtal eftir að hún var frumsýnd á Sundance í fyrra. Fyrirsagnir um myndina vöktu sannarlega áhuga minn og ég hef beðið spenntur eftir að sjá hana, þó nokkuð vonlaus um að hún myndi rata hingað í bíó – og því ber auðvitað að fagna að við höfum nú ekki eina heldur tvær alþjóðlegar kvikmyndahátíðir sem bera svona spennandi myndir á borð fyrir okkur. Girl er leikstýrt og skrifuð af hinni ensk-írönsku Önu Lily Amirpour, sem er búsett í Bandaríkjunum, en myndin er öll á persnesku. Þetta er vampírumynd sem sækir í hefðir spaghettívestra, hryllingsmynda og annarra költgeira, en hefur þó sína eigin rödd og stíl. Myndin er þannig ekki bara uppsuða á kunnuglegu efni, heldur nýtir áhrifavaldana til að skapa eitthvað óvenjulegt. Í grunninn er um að ræða ástarsögu á milli vampíru og manns, sem er þó hryllileg þegar hún þarf að vera hryllileg, en umframt allt er kvikmyndin löðrandi í andrúmslofti og stemningu. Vampírustúlkan virkar undir eins íkonísk, þar sem hún ráfar um strætin í chador-klæðum, eins og vampíruskikkju, svífandi um ekki í lausu lofti, heldur á hjólabretti sem hún hefur hirt af fórnarlambi sínu. Myndin minnir um margt á gamlar, japanskar draugamyndir – mér varð sérstaklega hugsað til mynda Kaneto Shindo á köflum – en hún fer í margar aðrar áttir líka, sem er einn helsti styrkleiki hennar. Stíllinn sækir í svo margar áttir að það gæti auðveldlega orðið yfirgengilegt, jafnvel pirrandi, en leikstjórinn Amirpour nær að blanda öllu akkúrat nógu vel saman til að smíða sína eigin sýn á kvikmyndahefðirnar. Svart-hvíta útlitið gefur myndinni stemningu gamalla rökkurmynda, sem endurómar í ákveðinni erkitýpu-persónusköpun og síðan sviðsetningu í ímyndaðri nútímaborg, nokkurs konar staðleysu sem er til á óræðum tíma, og er aldrei kölluð annað en einfaldlega Vondaborg. Svipað og Ida sækir Girl áhrif sín aftur til eldri mynda, en þó á allt annan hátt, og meira til genre-mynda sjöunda og áttunda áratugarins, þótt þögla tímabilið sé vissulega til staðar hér líka. Myndinni hefur líka verið líkt við eldri verk Jims Jarmusch, sem er skiljanlegt: myndin einkennist af hægri eða þolinmóðri framvindu, skemmtilegri notkun á tónlist og poppkúltur, og sérstaklega glettnum naumhyggjustíl sem blandar saman látlausum húmor og hryllingi. Amirpour talar sjálf mikið um spaghettívestra sem áhrifavalda, en líka hina svart-hvítu smábæjartöffaramynd Rumble Fish eftir Coppola, ofbeldisrómansinn Wild at Hearteftir Lynch, og klassísk vampíruverk á borð við Nosferatu eftir Murnau og Interview with the Vampire eftir Rice. Amirpour lýsir myndinni enn fremur sem ævintýri og það er lýsing sem passar vel – furðuverk sem er fyrst og fremst til í kvikmyndalegum veruleika, þar sem vestrar, vampírur og poppmúsík renna óhindrað saman í eina heild. Hlutverk vampírustúlkunnar er sérstaklega skrifað fyrir leikkonuna Sheilu Vand, sem hverfur alveg inn í dáleiðandi femme fatale týpu sem gæti verið klippt úr gamalli þögulli kvikmynd. En ekki má gleyma öðrum aðalleikara, kettinum Masuka, sem verður nánast að aðalpersónu eftir því sem á líður, tekur á köflum alveg yfir skjáinn með ófyrirsjáanlegri hegðun, eins og dýr gera gjarnan í kvikmyndum, og endurspeglar eðli vampírunnar á skemmtilegan hátt. A Girl Walks Home Alone At Night er svöl, rómantísk og öðruvísi vampírumynd, virkilega spennandi fyrsta verk leikstjóra sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.
Gunnar Theodór Eggertsson
Sjá nánar hér: Nokkrar góðar á Stockfish | RÚV.