Bandarísku dreififyrirtækin Lionsgate og Roadside Attractions munu dreifa kvikmyndinni Z for Zachariah sem Skúli Malmquist og Þórir Snær Sigurjónsson hjá Zik Zak kvikmyndum framleiða í samvinnu við Tobey Maguire, Sigurjón Sighvatsson og fleiri aðila. Myndin verður frumsýnd á Sundance hátíðinni í lok janúar.
Þetta kemur fram á kvikmyndavefnum The Wrap, sem einnig skýrir frá því að Lionsgate hafi fest sér myndina fyrir nokkru síðan en ekki tilkynnt dreifingarplön sín fyrr en nú.
The Wrap gerir því jafnframt skóna að myndin sé ein þeirra sem beðið sé með hvað mestri eftirvæntingu á komandi Sundance hátíð.
Lionsgate er eitt af stærstu dreifingarfyrirtækjum Norður-Ameríku og hefur meðal annars sent frá sér The Hunger Games og The Expendables seríurnar á undanförnum árum svo eitthvað sé nefnt. Roadside Attractions dreifir kvikmyndum á Bandaríkjamarkaði sem gerðar eru af sjálfstæðum framleiðendum, meðal mynda þeirra á undanförnum árum eru Winter’s Bone, Biutiful, Margin Call og A Most Wanted Man sem var síðasta mynd Phillip Seymour Hoffman.
Sjá nánar hér: Margot Robbie’s ‘Z For Zachariah’ to Be Released by Lionsgate, Roadside Attractions (Exclusive) – TheWrap.