Ellefu stjórnarþingmenn, þar meðal Vigdís Hauksdóttir formaður Fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður nefndarinnar hafa óskað þess að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á hagrænum áhrifum kvikmyndagerðar á Íslandi.
RÚV greinir frá.
Leggja á áherslu á svæðisbundin áhrif og á skýrslan að vera tilbúin ekki síðar en í mars á næsta ári. Í greinargerð með beiðninni er bent á að skatttekjur ríkisins vegna kvikmynda hafi verið um 4,42 milljarðar króna árið 2010, en framlög í Kvikmyndasjóð og í endurgreiðslu á kostnaði það ár hafi verið um 830 milljónir króna þannig að ávinningur ríkisins vegna kvikmynda hafi verið um 3,6 milljarðar króna það ár. Sóknarfæri í kvikmyndageiranum ættu að vera mikil ef rétt sé haldið á málum og nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að ígrunda vel hvernig best er að styðja við þennan geira.
Nefnd eru nokkur dæmi hér og erlendis um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á tiltekin landssvæði, eins og Flags of Our Fathers eftir Clint Eastwood sem tekin var að hluta á Suðurnesjum, áhrif myndanna um Wallander lögreglumann á sænska bæinn Ystad og Skán og bandarísku rauðvínsmyndarinnar Sideways á borgina Santa Barbara í Kaliforníu.
Sjá nánar hér: Vilja kanna efnahagsáhrif kvikmynda | RÚV.