Viðhorf | Hvað varð um sóknaráætlun skapandi greina?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur áramótaávarp sitt 2013.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur áramótaávarp sitt 2013.

Stjórnvöld leggja til að RÚV fái útvarpsgjaldið óskert á næsta ári (400 mkr. hækkun á framlagi eða um 13%) og vilja einnig bæta aðeins í framlög til kvikmyndagerðar (50 mkr. eða rúmlega 6%). Þessu ber auðvitað að fagna.

50 milljón króna viðbótarframlag til Kvikmyndasjóðs er þó ekki mikið uppí hinn gríðarlega niðurskurð yfirstandandi árs (sjóðurinn hefði átt að vera 1.070 á þessu ári en er 624,7 mkr. – og 1.188 mkr. á næsta ári en verður líklega 774,7 mkr. nái tillögur fram að ganga).

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa reynt að halda því fram að málið sé ekki svona vaxið, en þeim sjónarmiðum var skýrt og skorinort svarað hér.

Hvar er sóknaráætlun skapandi greina?

Af einhverjum ástæðum bólar enn ekkert á svokallaðri sóknaráætlun skapandi greina sem forsætisráðherra kynnti í síðasta áramótaávarpi að kæmi fram á árinu. Sigmundur Davíð sagði þá:

“Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mun á nýja árinu. Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs, þar sem hugvit og sköpunarkraftur fara saman.”

Í viðtali við Klapptré s.l. vor var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra spurður útí þetta. Þá kom meðal annars þetta fram:

– Í hverju felast áherslur sóknaráætlunar fyrir skapandi greinar sem forsætisráðherra boðaði að væri væntanleg í áramótaávarpi sínu?

Við í ráðuneytinu höfum verið að skoða hvernig við getum styrkt stoðir hinna svokölluðu skapandi greina. Auðvitað fellur mjög margt undir þetta víða hugtak en ýmsir þættir eru sameiginlegir. Þar má nefna fjármagn frá ríkinu, rekstrar- og skattaumhverfi greinanna og síðan skipulag þeirra, sem um margt er reyndar ágætt og hefur færst til betri vegar á undanförnum árum.

Auðvitað væri æskilegt að við hefðum úr meiri peningum að spila en staða ríkissjóðs setur okkur mörk. Ég vonast þó til þess að við getum snúið vörn í sókn á þessu ári og að á kjörtímabilinu verði meira svigrúm varðandi útgjöld ríkissjóðs til skapandi greina. Varðandi rekstrar- og skattaumhverfið höfum við til dæmis verið að skoða í samvinnu við fjármálaráðuneytið hvernig við getum hvatt fyrirtæki enn frekar en nú er til að styðja betur við skapandi greinar.

– Ertu þá að tala um einhverskonar skattaívilnanir?

Meðal annars. Mér finnst nauðsynlegt að það sé ákveðið jafnvægi milli þess fjármagns sem kemur frá hinu opinbera og er stýrt í gegnum sjóði og ráðuneytið annarsvegar og hinsvegar fjármagns frá einkaaðilum sem lýtur meiri dreifstýringu. Við hrun fjármálakerfisins hvarf auðvitað stór hluti þeirra fjármuna sem höfðu runnið í listir og menningu, en ég held að það sé mjög mikilvægt að fyrirtækin sjái sér hag í því að styðja þetta svið.

Annað þessu tengt er samspil menningarinnar við aðra þætti efnahagslífsins. Listir og menning geta auðvitað verið frábær landkynning og fyrirtækin geta að vissu marki kynnt vörur sínar og þjónustu erlendis með því að styðjast við skapandi greinar. Við erum semsagt einnig að skoða hvar hægt sé að gera betur á því sviði. Eitt er að selja menninguna sjálfa, annað hvernig hún getur ýtt undir kynningu og sölu á okkar vörum og þjónustu.

– Hvenær verður þessi sóknaráætlun lögð fram?

Vonandi á þessu ári, ég vil ekki leggja fram nákvæma dagsetningu á þessu stigi. Ég vil líka taka fram að hér er ekki um að ræða einhverja stórkostlegu u-beygju frá því sem verið hefur, menn verða að sýna ákveðna varkárni í því að gera miklar breytingar á umhverfi menningarstarfseminnar. Aðalatriðið er að koma auga á þau tækifæri sem við höfum.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR