spot_img

RÚV um “Grafir og bein”: Of margar sögur í einu

grafir-og-bein-stillGunnar Theódór Eggertsson fjallaði um Grafir og bein í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og segir myndina vilja segja aðeins of margar sögur í einu. “Handritið inniheldur ýmsar áhugaverðar hugmyndir […] en myndin þjáist af því að fara í of margar áttir í einu og missa of mikinn fókus í leiðinni, þangað til á lokasprettinum. Myndin kann að vera með hjartað á réttum stað, en mér þótti hún einfaldlega hvorki nógu spennandi né ógnvekjandi á heildina litið.”

Gunnar segir:

Grafir og bein er ný íslensk hryllingsspennumynd eftir leikstjórann Anton Sigurðsson. Þar segir frá Gunnari, peningabraskara sem á yfir höfði sér fimm og hálfs árs fangelsisdóm eftir að upp komst um fjársvik hans í tengslum við hrunið, og konu hans, Sonju. Gunnar hafði fengið bróður sinn með í braskið og saman virðast þeir hafa tapað miklu, peningum jafnt sem orðstír. Strax í upphafi er sýnt rifrildi á milli þeirra bræðra, og stuttu síðar komumst við að því að bróðirinn virðist hafa framið sjálfsmorð í sveitahúsi sem tilheyrði fjölskyldu þeirra. Dóttir hans, Perla, var föst í húsinu með líkinu í fjóra daga. Hvað varð um móðurina er aldrei beinlínis útskýrt, utan þess að hún virðist líka vera dáin – það er allt frekar óljóst með andlát foreldranna. Gunnar og Sonja fara að sækja stúlkuna, stuttu áður en Gunnar á að mæta fyrir rétt, en þau hafa sjálf misst dóttur ári áður og eru því bæði í tilfinningalegu ójafnvægi vegna barnamissisins og vegna dómsmálsins sem er í gangi, en Gunnar er stanslaust í fréttunum. Þegar þau mæta í húsið að finna stúlkuna Perlu kemur smátt og smátt í ljós að húsið er reimt.

Ef lýsingin á þræði myndarinnar hér á undan hljómaði ruglingslega er það vegna þess að handritið er óneitanlega dálítið ruglingslegt. Sagan er að hluta til saga um eftirmála hrunsins, siðleysi í peningamálum í samhengi við illa anda og drauga, en líka saga um hjón að syrgja barnið sitt, í leit að staðgengli og huggun. Svo er sagan enn fremur nokkuð hefðbundin draugahúss-saga, þar sem gamlir andar leita á nýja íbúa og vilja hefna sín á þeim eða reka þá burt, og líka barnahryllingur, þar sem unga stúlkan verður ókennileg í augum hinna fullorðnu, jafnvel hættuleg, með einum of náin tengsl við hið yfirnáttúrulega. Sagan tekur í raun inn of mikið af efni og nær ekki almennilega tökum á því öllu saman, sem gerir að verkum að spennan og óhugnaðurinn nær aldrei yfirhöndinni. Mig langaði að hrífast af Gröfum og beinum, þar sem ég er mikill áhugamaður um hryllingsmyndir, en í þessu tilviki var ég því miður ekki nógu hrifinn. Myndin er mjög lengi að koma sér í gang, kemst varla úr sporunum fyrir hlé, meðal annars vegna þess að hún er of upptekin af baksögu persónanna, t.d. með óþörfum endurlitum í forsögu þeirra bræðra, og eyðir of miklu púðri í söguna um bankasvindlarann, sem spilar aldrei sérstaklega inn í myndina eftir því sem á líður. Sagan um dótturmissinn er sterkari, en það er líka saga sem við höfum heyrt og séð áður í öðrum myndum – Don‘t Look Now kom óneitanlega upp í hugann á meðan á áhorfi stóð – og Grafir og bein kemur ekki sérstaklega á óvart í þeim málum. Myndin kemst þó dálítið betur í gang eftir hlé og þar eru nokkrar góðar senur með draugagangi og látum, en hrollurinn reiðir sig þó töluvert á að bregða áhorfendum með snöggu innliti drauganna, háværri hljóðrás sem skiptist á að vera óhljóð og þögn, og öðrum bellibrögðum. Óhugnaðurinn í andrúmsloftinu sjálfu er ekki jafnáþreifanlegur og ég lifði mig aldrei sérstaklega inn í stemninguna í húsinu.

Aðalvandamálin sem ég upplifði tengdust í raun handritinu og ryþmanum og flæðinu í myndinni almennt, sem náði ekki að soga mig inn í söguheiminn, en að öðru leyti ber að minnast á að Grafir og bein lítur mjög vel út, sviðsetningin í einangraðri sveitinni er vel nýtt, farði og brellur varðandi útlit drauganna er mjög grípandi og flott, og leikaraliðið stendur sig vel, sérstaklega hjónin sem leikin eru af Birni Hlyni og Nínu Dögg, og stúlkan Elva María, í hlutverki Perlu, er líka hið fínasta hrollvekjubarn. Ég get þó ekki annað en minnst á að ég sá ekki betur en að hún væri titluð Elvar María, en ekki Elva, í upphafstitlum myndarinnar, sem eru óneitanlega nokkuð vandræðaleg mistök, og vonum bara að mér hafi missést. Grafir og bein er hryllingsmynd sem vill segja aðeins of margar sögur í einu, og handritið inniheldur ýmsar áhugaverðar hugmyndir, sérstaklega varðandi tengsl siðlausa bankamannsins við draugaganginn og að gera aðalpersónuna í rauninni að manni sem fæstir myndu hafa mikla samúð með, en myndin þjáist af því að fara í of margar áttir í einu og missa of mikinn fókus í leiðinni, þangað til á lokasprettinum. Myndin kann að vera með hjartað á réttum stað, en mér þótti hún einfaldlega hvorki nógu spennandi né ógnvekjandi á heildina litið. Engu að síður kann ég vel að meta framtakið og vona að við fáum fleiri íslenskar hryllingsmyndir áður en langt um líður.

Sjá nánar hér: Vikulegur bíóskammtur Gunnars Theodórs | RÚV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR