Fjórða Sveppamyndin, Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum, fékk alls 11.425 manns á opnunarhelginni og 12.225 séu forsýningar meðtaldar. Þetta er stærsta opnunarhelgi alla Sveppamyndanna fram að þessu og fjórða stærsta opnunarhelgi íslenskrar kvikmyndar frá því mælingar hófust 1996 (Mýrin, Bjarnfreðarson og Stella í framboði eru ofar). Myndin trónir í efsta sætinu, en Grafir og bein eru í því þriðja með alls 2.128 gesti að forsýningum meðtöldum (1.418 um opnunarhelgina).
Borgríki 2 Ólafs de Fleur fellur úr þriðja sæti aðsóknarlistans í það fimmta eftir þriðju sýningarhelgi. 941 sá myndina um helgina en alls 2.337 yfir vikuna. Heildaraðsókn frá upphafi nemur 9.379 manns.
Afinn er nú í áttunda sæti eftir sjöttu sýningarhelgi. Alls hafa 13.959 séð myndina frá upphafi, þar af 1.050 síðastliðna viku.
París norðursins er nú í 20. sæti aðsóknarlistans eftir níu vikur í sýningum. Alls hafa 11.468 gestir séð myndina hingað til, en þar af komu 93 í vikunni. Búast má við að sýningum fari senn að ljúka.
AÐSÓKN VIKUNA 27. okt. til 2. nóv. 2014:
VIKUR | MYND | AÐSÓKN | HEILDARAÐSÓKN |
---|---|---|---|
Ný | Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum | 11.425 | 12.225 |
Ný | Grafir og bein | 1.418 | 2.128 |
3 | Borgríki 2 | 2.337 | 9.379 |
6 | Afinn | 1.050 | 13.959 |
9 | París norðursins | 93 | 11.468 |