Handrit vísindatryllisins Protos eftir Martein Þórsson hefur verið valið til kynningar á B’EST (Baltic East by West Producers’ Workshop), vinnustofu á vegum EAVE samtakanna sem höndla með verkefnaþróun og samstarf milli evrópskra framleiðenda. Verkefnið hefur áður hlotið handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð.
Að sögn Marteins er handritið innblásið af sögu Joseph Conrad, Heart of Darkness, en Francis Ford Coppola byggði einmitt mynd sína Apocalypse Now á sama verki. Protos gerist árið 3113 og fjallar um málaliðann Heru Hansen sem þjáist af minnisleysi. Hún er send af Heimsyfirráðafélaginu til að hafa uppá milljarðamæringnum Hans Po og koma honum fyrir kattarnef, en síðast sást til Po á eldfjallaeyju sinni í Reit 354.
Marteinn lýsir myndinni sem andlega skyldri kvikmyndunum Blade Runner og Apocalypse Now, meðan stíll og tónn minnir á Sin City og Valhalla Rising.
Guðni Líndal Benediktsson skrifaði handritsdrög ásamt Marteini og einnig kom Óttar M. Norðfjörð að skrifum.
Sjá nánar hér: PROTOS SELECTED FOR B’EST ‹ Tenderlee Motion Pictures Company.