Handrit: Hrafnkell Stefánsson, Olaf de Fleur Jóhannesson
Aðalhlutverk: Darri Ingólfsson, Ingvar Eggert Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason, Sigurður Sigurjónsson, Zlatko Krickic, Ágústa Eva Erlendsdóttir, JJ Feild
Ísland, 2014
[/message_box][/column]Myndin Borgríki eftir Ólaf De Fleur kom með eitthvað nýtt í íslenska kvikmyndagerð, hún bauð upp á eitthvað sem hafði sést oft áður í öðrum löndum en ekki á Íslandi: Glæpamynd sem gekk ekki út á hver drap hvern heldur öllu heldur að skoða sjálft fólkið, bæði löggurnar og bófana. Þetta var ekki spurning um gott gegn illu heldur var þetta bara skoðun á mannfólki í hættulegum heimi. En þetta var líka bara töff krimmi, þó hún hefði vissulega sína galla. Myndin var virðingarverð tilraun til að prufa eitthvað nýtt.
Núna er komin Borgríki 2 en hún heldur áfram með þennan heim og víkkar hann út. Þetta er sjálfstætt framhald sem byggir þó vel á grunni fyrstu myndarinnar, virkar bæði með og án hennar.
Fyrsta myndin fjallaði, meðal annara hluta, um ris Sergei (Zlatko Krickic) og fall Gunnar Gunnarssonar (Ingvar E. Sigurðsson) innan glæpaheimsins og núna er Sergei orðinn glæpakóngur á meðan Gunnar er kominn í fangelsi. En aðalpersónan í þetta skiptið er lögreglumaðurinn Hannes Árnason (Darri Ingólfsson). Í upphafi kynnumst við honum í inntökuprófi fyrir víkingasveitina sem hann skítfellur á, en í staðinn nær hann að redda sér “kósí” vinnu við innra eftirlit lögreglunnar með hjálp föður síns (Theódór Júlíusson). Gunnar hefur samband við og biður hann um samstarf sem felst í því að Gunnar hjálpar Hannesi að koma upp um spillingu innan löggunnar, og ná til Sergei í leiðinni, og í staðinn gerir Hannes Gunnari greiða.
Í stuttu máli sagt er Borgríki 2 mynd um spillingu. Það eru allir jafn spilltir hér, löggur sem bófar. Löggurnar gera vafasama hluti til að ná sínu fram og um leið eru glæpamennirnir sýndir sem manneskjur sem hafa sínar ástæður, þeir eru ekki glæpamenn endilega því þeir eru svo rosalega illir. Það er líka áhugavert hvernig Hannes er strax málaður sem manneskja sem er langt frá því að vera fullkomin. Við kynnumst honum fyrst vera að kolfalla á Víkingsveitarprófi og síðan fær hann vinnu í innra eftirliti gegnum hreinan klíkuskap þar sem hann lætur pabba sinn, sem er lögreglumaður á eftirlaunum, toga í nokkra strengi.
Óbeint mætti líta á Borgríki 2 sem ákveðna sýn á Ísland eftir hrun. Við teljum okkur vera óspillt samfélag en raunin er sú að við erum það alls ekki og það kom svo sannarlega á yfirborðið í kjölfar hrunsins. Hérna sjáum við þessa spillingu svart á hvítu. Klíkuskapur og eiginhagsmunasemi ríkja.
Borgríki 2 er að mestu leyti mjög vönduð mynd sem heldur manni frá upphafi til enda. Þetta er það sem maður myndi kalla “solid ræmu”. Hún gerir fátt sérlega illa og nær að mestu því sem hún ætlar sér. Þetta er framhaldsmynd sem er ekki algjör endurtekning á fyrstu myndinni heldur víkkar út heiminn og bætir einhverju við, en viðheldur samt stemningu fyrstu myndarinnar.
Það mætti kannski saka myndina um að hún sé kannski aðeins of mikið að reyna að vera eins og einhver bandarískur krimmi, en hún nær samt að gera þetta “íslenskt” að mestu leyti. Hún er ekki beint raunsæ (það er t.d. ekkert innra eftirlit í lögreglunni hérna) en virkar samt ágætlega sannfærandi að mestu. T.d. er atriði í myndinni þar sem glæpamaður er skotinn niður af lögreglunni, atriði sem hefði ekki virkað svo sannfærandi fyrir nokkrum árum en er næstum óþægilega viðeigandi í dag.
Leikararnir standa sig flestir með ágætum. Darri Ingólfsson skilar sínu vel og maður skilur hvers vegna hann hefur verið að fá hlutverk í bandarískum sakamálaþáttum, hann er nokkuð sannfærandi lögga. Hilmir Snær ofleikur svolítið í byrjun sem herforingjalegur þjálfari í víkingasveitinni en róast þegar á líður og kemur með ágætis “comic relief” í myndina sem myndar ágætt mótvægi við allt dramað og hasarinn.
Einn helsti galli myndarinnar er bágur hlutur kvenpersónanna. Það eru einunigs tvær kvenpersónur hér sem skipta einhverju verulega máli og önnur þeirra er eiginkona Hannesar sem er í raun lítið meira en fórnarlamb og kemur auk þess voða lítið við sögu í seinni hluta myndar. Hin persónan er lögreglukonan Andrea (Ágústa Eva Erlendsdóttir) sem fékk taugaáfall í kjölfar atburða fyrstu myndarinnar og er núna bara með skrifstofustarf. Hún spilar ákveðin þátt í sögunni en fær samt í raun ekki mikið að gera, persóna hennar er ekkert sérlega virk. Það er ekki beint hægt að kalla þetta kvenfyrirlitningu en þetta er enn eitt dæmið um skort á bitastæðum hlutverkum fyrir kvenkyns leikara í bíómyndum. Þetta er óttalegur karlaheimur sem myndin gerist í en hefði ekki endilega þurft að vera svo.
Áður en handrit myndarinnar var skrifað var ákveðið að gera bók úr sögunni sem Óttar M. Norðfjörð skrifaði upp úr sögu Ólafs og Hrafnkels Stefánssonar handritshöfunds, og var síðan handritið unnið upp úr bókinni. Myndin virkar samt alls ekki eins og kvikmynduð bók en þó eimar aðeins af því og þá helst í yfirtali sem kemur í upphafi og enda myndar. Tilfinningin í þessu yfirtali er einhvern veginn úr takt við restina af myndinni og kemur hálfskringilega út, sem kemur aðeins niður á heildarsvipnum.
En í heildina séð er Borgríki 2 hin fínasta afþreying og engu síðri en forverinn. Óli de Fleur og félagar hjá Poppoli gætu gert margt verra en að gera Borgríki 3.