Jónas Reynir Gunnarsson meistaranemi í ritlist ræðir punkta úr pistli Friðriks Erlingssonar um leikið innlent sjónvarpsefni á vefritinu Hugrás sem hugvísindasvið Háskóla Íslands gefur út. Hann segir það afar hressandi að lesa ástríðufullan texta og gagnrýna umfjöllun um íslenska sjónvarpsþætti, en finnst Friðrik ekki láta bandarískt sjónvarpsefni njóta sannmælis.
Jónas segir meðal annars:
Ég æstist allur upp við að lesa pistil Friðriks Erlingssonar á Klapptré um íslenska sjónvarpsþáttagerð. Mikið er hressandi þegar menn þora að gagnrýna. Mikið er hressandi þegar menn tjá sig af ástríðu. Og mikið er hressandi að fá íslenska umfjöllun um sjónvarpsþætti; það er yfirleitt ótrúlega lítið af henni.
Friðrik bendir réttilega, og reiðilega, á að íslenskir handritshöfundar ættu að líta til Danmerkur eftir innblæstri. Þar eru frábærir hlutir í gangi. Bandaríkjamenn föttuðu það á undan okkur og endurgerðuForbrydelsen. Danir vita hverjir þeir eru og hvað þeir standa fyrir, segir Friðrik. Þeir segja sínar eigin sögur og það ættum við líka að gera.Vaktaþættirnir er sú íslenska þáttaröð sem hefur gert það best, samkvæmt Friðriki: „vegna þess að þættirnir eru skapaðir og framleiddir af sannfæringu, af fólki sem telur sig hafa erindi“.
Ég tek undir hvert orð. Friðrik heldur áfram og líkir mikilvægi Vaktaþáttanna við Njálu. Aðalpersónur þáttanna eru vissulega stórkostlegar og þess virði að minnast sem hátinda íslenskrar sjónvarpsþáttagerðar. Þær eru meira að segja svo áhrifamiklar að sumsstaðar í pistlinum breytist Friðrik óvart í Georg Bjarnfreðarson (feitletrun er mín):
Augljóslega þykir okkur það ekki smart, eins ameríkanseruð og við sannarlega erum, Okkur virðist líða betur að apa eftir lágkúrunni vestanhafs en að sækja fyrirmynd til Dana þegar kemur að sjónvarpsþáttagerð.
[…]
Ein ástæðan fyrir velgengni Dana í sköpun og framleiðslu sjónvarpsþáttaraða er sú, að þeir, fyrir margt löngu, fóru að hafa áhyggjur af áhrifum bandarískra sjónvarpsþáttaraða á menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar.
[…]
Hvaða heimsmynd, og sjálfsmynd, eru börnin okkar að alast upp við, þegar þau sjá ekkert annað í sjónvarpi og kvikmyndahúsum en fjöldaframleidda bandaríska spennu-, glæpa – og lögguþætti*, sem framleiddir eru í þeim höfuðtilgangi einum að auka sölu á auglýsingum?
* Eftirminnileg eru orð Helenar Lovejoy úr The Simpsons: „Won’t somebody PLEASE think of the children?!“
Friðrik pirrast aðallega yfir þeim íslenskum glæpasögum sem eru hallærislegar eftirlíkingar af lélegum bandarískum þáttum. Það má líka túlka þessar áhyggjur af lágkúrunni svo að honum þyki það slæm hugmynd að klóna þætti eins og CSI: Miami og According to Jim. Ef til vill er það rétt, en kannski er ástæðulaust að senda bandarískri sjónvarpsþáttagerð tóninn. Friðrik gefur henni þó séns síðar í pistlinum: „…þótt amerískt sjónvarp framleiði mikið af rusli þá geta þeir svo sannarlega framleitt vandað, gott og gegnheilt efni.“
Þrátt fyrir þennan fyrirvara afgreiðir hann bandaríska þáttagerð nokkuð harkalega. Ég er sammála því að drasl sé slæmt, en ekki að bandarískt drasl sé verra en annað. Sjónvarpsþáttagerð er margþætt bæði í Bandaríkjunum og Danmörku. Að halda því fram að það sem komi frá Bandaríkjunum sé alla jafna fjöldaframleidd vitleysa og það sem komi frá Evrópu séu vitsmunaleg listaverk er klisja, sérstaklega árið 2014.
Pistilinn má lesa í heild hér: Skoðun: Er ekki sama hvaðan gott kemur?.