Valur Gunnarsson hjá DV fer yfir þær myndir sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðauna Norðurlandaráðs í ár og spáir í spilin.
Valur segir meðal annars:
Sú mynd sem kemur mest á óvart er hin norska Blind. Norðmenn hafa lengi staðið frændþjóðum sínum langt að baki í kvikmyndagerð en eru nú óðum að sækja í sig veðrið. Eskil Vogt er handritshöfundur sem hér leikstýrir sinni fyrstu mynd. Rétt eins og er í tísku þessa dagana er ekki ljóst hvað er skáldskapur og hvað raunveruleiki, en sögupersónan er blindur rithöfundur sem skrifar bók um persónur sem óðum blandast inn í líf hennar sjálfrar.
Hugmyndaauðgin er mikil og ótrúlegt hvað höfundur er fljótur að afgreina hin ýmsu minni. Um tíma er eins og maður sé staddur í klámfíklamynd á borð við Shame eftir Steve McQueen, en er síðan rifinn út úr þeim pælingum og beint inn í Veröld Soffíu. Einna haganlegast er hvernig fjöldamorð Breiviks eru afgreidd. Hin mikla samkennd þjóðarinnar sem brýst út í kjölfarið verður fljótlega aftur að hversdagsleika, sem þó einkennist af meiri tortryggni en áður. Persónan getur ekki annað en saknað eftirmála fjöldamorðanna, sem er hugrökk athugasemd og margt í úrvinnslu fjöldamorðanna minnir reyndar á eftirmál bankahrunsins hér.
Erfitt að elska Norðmenn (og Svía)
Norðmenn gætu hér hæglega blandað sér í toppslaginn og ættu ef til vill sigurinn vísan ef ekki væri fyrir feiknasterkt framlag Svía, en svo skemmtilega vill til að báðar þessar myndir fjalla öðrum þræði um ástarsambönd á milli Norðmanna og Svía. Ruben Östlund vann í hittifyrra fyrir hina umdeildu mynd Play, en hér mætir hann til leiks með enn sterkara verk, myndina Turist (Force Majeure). Myndin er nánast óaðfinnanleg þegar kemur að kvikmyndatöku, klippingu og tónlist, og þó finnst manni sem hér sé eitthvað á ferðinni sem maður hefur ekki séð áður. Og samt er það söguþráðurinn sjálfur sem er áhugaverðastur.
Östlund segist vilja taka sjálfumgleði Norðurlandabúa hálstaki, en hann gerir í raun meira en það og sker inn að kviku. Rétt eins og Play fjallaði um viðhorf til innflytjenda, þar sem hann sallaði niður pólitískan rétttrúnað jafnt sem rasisma, er hér röðin komin að samskiptum kynjanna.Karlmenn sem fæddir eru á áttunda áratugnum vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og eru jafn ómögulegir í samskiptum sínum við yngri konur og jafnöldrur. Skandinava þessa skortir hugrekki og bregðast þannig fjölskyldum þar sem þeir eru þrátt fyrir allt settir í hefðbundin hlutverk, á meðan konurnar eiga erfitt með að takast á við grenjandi karlpening. Enn virðist enginn geta átt samskipti hver við annan, þrátt fyrir 40 ára jafnréttisbaráttu. Kannski er það eina sem hægt er að gera að fara upp á fjöll og öskra til að spara sér sálfræðitímana, eða kannski er kominn tími til að gefast upp á sambandsforminu og stunda fjölást eins og myndin gefur í skyn.
Sjá nánar hér: Danskt klám, íslensk hross, blindir Norðmenn og grátandi Svíar – DV.