[column col=“1/2″][message_box title=“Turist“ color=“gray“]
[usr 3,5]
Leikstjóri: Ruben Östlund
Handrit: Ruben Östlund
Aðalhlutverk: Johannes Kuhnke, Lisa Loven Kongsli, Clara Wettergren
Svíþjóð, 2014
[/message_box][/column]Líkt og síðasta mynd leikstjórans Ruben Östlund, Play, er Turist ekki sérlega auðveld áhorfs (þó ekki alveg eins óþægileg) og mjög svo opin fyrir túlkun. Í Play var Östlund að skoða kynþáttafordóma (á þannig hátt að sumir ásökuðu hann um kynþáttafordóma) og stéttaskiptingu en í þetta skiptið er hann að skoða kynjahlutverkin og hugmyndir um hugrekki og heigulshátt.
Myndin segir sögu dæmigerðrar sænskrar fjölskyldu, svokallaðrar vísitölufjölskylduna sem samanstendur af móður og föður og tveim börnum, strák og stelpu (eina sem vantar er hundur). Þessi fjölskylda er í frí í skíðasvæði í Frakklandi. Snemma í fríinu gerist það að fjölskyldan verður næstum því fyrir snjófljóði, svokölluðu “stjórnuðu” snjóflóði en snjóský sem það framkallar lendir á matsölustað sem fjölskyldan er að snæða á. Í smástund halda þau að snjóflóðið muni skella á þeim en á meðan móðirin fer strax í að vernda börnin tekur faðirinn á rás og flýr af hólmi. Þetta er upphafið á því sem endar á að vera mjög svo vandræðalegt frí fyrir fjölskylduna.
Turist er í kjarnann stúdía á karlmennsku vs. kvenleika og leikur sér með hugmyndir um hvað felst í því að vera karlmaður, eða jafnvel hetja. Hún er líka ekki endilega svo mikið um hvernig menn bregðast við krísu heldur um hvernig samfélagið segir okkur hvernig við eigum að bregðast við, og jafnvel hvernig maður eigi að bregðast við viðbrögðunum.
Margar senur í Turist virka þannig að myndavélin situr kyrr á meðan atriðið rennur sitt skeið og það er að einhverju leyti undir áhorfandanum komið hvert athyglinni skal beint. Þessi stíll minnir á kvikmyndir leikstjóra á borð við Michael Haneke og myndin undir greinilegum áhrifum hans (en Östlund nær engu að síður að gera þetta á sinn hátt). Líkt og margar myndir Haneke (og Play) er ekki auðvelt að lesa í þessa mynd eða skrifa um hana, og er það greinilega tilgangurinn hjá Östlund. Hann vill láta áhorfandann eiga erfitt með að vita hvað honum finnst, myndin gefur manni ekki skýr svör og er það ljóslega leið til að fá áhorfendur til að virkilega hugsa um viðfangsefni myndarinnar. Þetta er mynd sem situr í manni.
Turist er mynd sem mun alls ekki falla öllum að geði en það er engu að síður erfitt að hunsa hana. Það mætti auðveldlega kalla hana tilgerðarlega (og hún er ofurlítið tilgerðarleg) en hún er líka snjöll og meistaralega gerð. Til að byrja með virðist þetta vera enn ein “artí-fartí” hátíðarmyndin en smám saman nær hún til manns og erfitt er að neita áhrifunum, þetta er mynd sem hristir í manni en lætur manni um leið líða óþægilega.
Án þess að skemma fyrir verður að segja að Turist þjáist af of mörgum endalokum, það kemur ákveðinn tímapunktur sem hefði virkað mjög vel sem endir á myndinni en svo heldur hún áfram aðeins lengur sem verða að teljast mistök, þó að lokaaugnablikið bæti næstum upp fyrir það.
Eitt er allavega á hreinu: Ruben Östlund er magnaður leikstjóri. Turist er glæsilega tekin, vel klippt og oft á tíðum meistaralega sviðsett mynd og hann nær frábærum frammistöðum úr öllum leikurunum.