Mike Leigh heiðursgestur RIFF 2014

Mike Leigh.
Mike Leigh.

Breski leikstjórinn Mike Leigh verður heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF) sem hefst 25. september næstkomandi. Hann tekur við  heiðursverðlaunum RIFF fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar á Bessastöðum þann 1. október.

Í fréttatilkynningu frá RIFF segir m.a.:
Leigh talar á sérstökum „masterklassa“ í hátíðarsal Háskóla Íslands sama dag og verður viðstaddur spurt og svarað sýningu kvöldið áður þann 30. september á nýjustu kvikmynd sinni, Hr. Turner, sem verður sýnd í Háskólabíói. Hann kemur hingað ásamt leikkonunni Marion Bailey, sem leikur í Mr. Turner.
Auk Mr. Turner verða tvær eldri myndir Leigh sýndar: Topsy-Turvy (1999), og Life is Sweet (1990).
Það er óhætt að segja að Mike Leigh sé einn mikilvægasti og áhrifamesti leikstjóri tíunda áratugarins, en eftir feril í leikhúsi og sjónvarpi, festi Leigh sig í sessi með kvikmyndunum Naked (1993) sem var tilnefnd til Gullpálmans í Cannes og Secrets and Lies (1996), sem hreppti sömu verðlaun. Síðan þá hefur Leigh gert hvern gullmolann á fætur öðrum, m.a. Vera Drake (2004) sem vann Gullljónið í Feneyjum og tugi annarra verðlauna um víða veröld og Happy-Go-Lucky (2008) sem heillaði bæði gagnrýnendur og áhorfendur á hátíðum um allan heim.
Nýjasta mynd Leigh, Mr. Turner, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor. Ásamt því að vera tilnefnd til Gullpálmans þá vann aðalleikari myndarinnar, Timothy Spall, leikaraverðlaunin á hátíðinni. Myndin hefur heillað gagnrýnendur upp úr skónum og má nefna að blöðin Guardian og Daily Telegraph gáfu myndinni fullt hús stjarna. Raunar er myndin með einkunnina 100 á Rotten Tomatoes og 97/100 á Metacritic. Báðar síður telja saman umsagnir tuga ef ekki hundruð gagnrýnenda hvaðanæva að úr heiminum.
Í Mr. Turner fjallar Leigh um ævi og störf eins mesta málara Breta, J.M.W. Turner, sem var álitinn mikill sérvitringur á sínum tíma en hann lagði grunninn að auknum hróðri landslagsmynda í málaralist á nítjándu öld.
Vinnuferli Leigh er vel þekkt. Hann byggir á grunnhugmynd sem hann þróar svo áfram á spunaæfingum með leikurum þar sem persónur eru skapaðar í sameiningu. Eftir þá samvinnu sest Leigh niður og skrifar handrit sem er síðan æft í frekari spuna, jafnvel á meðan tökum stendur. Afraksturinn eru djúpar persónur sem leikararnir þekkja vel og geta leikið á náttúrulegan og eðlilegan máta við allar aðstæður. Persónur Leigh mætti telja augljósasta einkenni leikstjórans sem síðan hnýtir þær saman á fallegan og mannlegan hátt.

Hér að neðan má sjá Leigh tala um Mr. Turner.

Sjá nánar hér: Mike Leigh á RIFF | Reykjavík International Film Festival.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR