Útsendingar nýrrar sjónvarpsstöðvar, iSTV, hefjast í kvöld. Stöðin sýnir eingöngu íslenskt efni. Hægt verður að horfa á stöðina gegnum myndlykla Símans og Vodafone til að byrja með og fljótlega á netinu.
Á bakvið iSTV eru þrettán áhugamenn um íslenska þátta- og kvikmyndagerð, en sjónvarpsstjóri er Jón E. Árnason. Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Mótorsmiðjunni, er dagskrárstjóri og Björn T. Hauksson, betur þekktur sem Bonni ljósmyndari, er markaðsstjóri.
Í samtali við Morgunblaðið segir Guðmundur Týr meðal annars:
„Það verður einblínt á okkur sem þjóð í þessu. Hér munu fæðast stjörnur sem stóru stöðvarnar munu svo kaupa.“
Guðmundur Týr segir þrettán hluthafa koma að verkefninu. Engar skuldir eru á félaginu, aðstandendur stöðvarinnar eiga öll tæki og tól, því standi félagið vel í byrjun og reksturinn verði frekar einfaldur og ódýr. iSTV verður til húsa í gömlu heilsuverndarstöðinni í Reykjavík.
Á hverju kvöldi vikunnar verða um þrjár til fjórar frumsýningar, hver í 30 mínútna hólfi frá átta á kvöldin fram til tíu eða ellefu. Um helgar verður svo sýnt frá því besta í vikunni og í hádeginu á sunnudögum verður þjóðmálaþáttur.
Sunnudagskvöldin verða svo einskonar alþýðukvöld, þar sem opnað verður fyrir sýningar á íslenskum stutt- og heimildarmyndum sem leynast í hillum landsmanna.
Sjá nánar hér: „Hér munu fæðast stjörnur“ – mbl.is.