Líkt og Klapptré sagði frá hefur starf forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands verið auglýst laust til umsóknar og er umsóknarfrestur til 25. júní. Erlendur Sveinsson, starfandi forstöðumaður, staðfestir í samtali við Klapptré að hann muni verða meðal umsækjenda enda segir hann ýmsum verkefnum sem hann hafi unnið að undanfarið ólokið og hugur hans standi til að klára þau. „Svo verður bara að koma í ljós hvernig fer,“ segir hann jafnframt.
Aðspurður um Bæjarbíó segir hann að safnið hafi dregið sig þaðan út, allavega í bili, enda hefur húsið verið falið í umsjá Menningar- og listafélags Hafnarfjarðar og gildir sá samningur til eins árs. Erlendur segir óvíst með sýningar safnsins næsta vetur en verið sé að vinna að áætlunum um frekara sýningahald til lengri tíma. Erlendur sagði of snemmt að skýra frekar frá þeim á þessu stigi.