Breskir gagnrýnendur taka Hross í oss fagnandi, en sýningar á henni hefjast í London og víðar í Bretlandi í dag. The Guardian, Daily Telegraph og Financial Times gefa öll myndinni fjórar stjörnur.
Á skilið költ status
Peter Bradshaw, gagnrýnandi Guardian, segir myndina virkilega ánægjulega frásögn um hráar tilfinningar í villtri náttúru. Tónlistin eftir Davíð Þór Jónsson sé frábært og myndin í heild algjörlega sér á parti og ólík nokkru öðru. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Bradshaw segist hafa leitt hugann að breska leikritinu Equus eftir Peter Schaffer, sem taki einnig á kynþörf mannsins og þráhyggju með hross. „Þessi mynd lætur hinsvegar alvarleika leikritsins og tilraunir þess til að hneyksla virðast sjálfhvert og kjánalegt í samanburði.“
Hann víkur að sjálfsögðu nokkrum orðum að íslenskri náttúru, enda gerist myndin nánast öll utandyra í í „stórkostlegri, villtri víðáttufegurð sem er, í raun, einn samfelldur tökustaður. Ein risastór náttúruleg sviðsmynd.“
Bradshaw segir Benedikt Erlingsson bæði einlægan og rómantískan í nálgun sinni á hrossin. Myndatakan og náin sjónarhorn sem gefin eru á hrossin beri merki um að þar sé fagurkeri við stjórnvölinn.
„Hún er eiginlega eins og þögul mynd – með orðum. Hrossin eru tungumálið sem gera mannfólkini kleift að tjá sig hvert við annað. Þessi mynd á „költ“ statusinn fyllilega skilið,“ segir Bradshaw að lokum.
Hið villta vestur er hér
Morgunblaðið segir einnig frá viðbrögðum gagnrýnenda Daily Telegraph og Financial Times.
Gagnrýnandi The Telegraph segir myndina ógleymanlega. Hann gefur henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Það sama gerir gagnrýnandi Financial Times, þar fær myndin einnig fjórar stjörnur.
Gagnrýnandi Telegraph, Robbie Collin er heillaður af myndinni, kvikmyndatökunni og hinu fræga íslenska landslagi sem hann segir kunnuglegt eftir að hafa verið notað í stórmyndum á borð við Noah og Prometheus og sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.
„Þessar íslensku sögur um menn og tengsl þeirra við hesta er sérkennilega tælandi,“ segir hann m.a. í dómi sínum.
Nigel Andrews, gagnrýnandi Financial Times, segir að myndin sé snjöll, fyndin og átakanleg í senn. Hann segir að leikstjórinn Benedikt sannfæri áhorfendur að lokum um að villta vestrið sé enn til í hinu nýja og villta norðri.
Umsögn The Guardian má lesa hér.
Umsögn Daily Telegraph er hér.
Umsögn Financial Times er hér.