Nuri Bilge Ceylan vinnur Gullpálmann fyrir „Vetrarsvefn“

Nuri Bilge Ceylan tekur við Gullpálmanum ú hendi Quentin Tarantino og Umu Thurman í Cannes í gærkvöldi.
Nuri Bilge Ceylan tekur við Gullpálmanum ú hendi Quentin Tarantino og Umu Thurman í Cannes í gærkvöldi.

Tyrkneski leikstjórinn Nuri Bilge Ceylan hlaut Gullpálmann í Cannes í gærkvöldi fyrir mynd sína Vetrarsvefn (Winter Sleep). Myndin, sem er um þrjár og hálf klukkustund, hefur hlotið mikið lof á hátíðinni og við upphaf hennar sagðist Peter Bradshaw, gagnrýnandi The Guardian, veðja á hana sem sigurmyndina. Engu að síður lýsti hann því yfir í gær að valið kæmi sér á óvart, enda hafði hann lýst efasemdum sínum um hana í fyrradag og spáð því að Mr. Turner eftir Mike Leigh fengi aðalverðlaunin.

Vetrarsvefn fjallar um Aydin, fyrrum leikara, sem rekur lítið hótel í Anatólíu ásamt ungri konu sinni Nihal sem hann á stormasömu sambandi við og systur sinni Necla sem er að jafna sig á skilnaði. Þegar veturinn gengur í garð og snjórinn byrjar að falla einangrast hótelið og samskipti þeirra verða stirðari. Umsögn Xan Brooks hjá The Guardian má sjá hér.

Ceylan, sem er einn af helstu meisturum evrópskra kvikmynda síðustu tvo áratugi, hlaut dómnefndarverðlaunin í Cannes 2003 fyrir mynd sína Uzak (Distant). Þá vann hann FISPRESCI verðlaunin 2006 fyrir Climates, leikstjórnarverðlaunin 2008 fyrir Three Monkeys og dómnefndarverðlaunin 2011 fyrir Once Upon a Time in Anatolia.

Stiklu myndarinnar má sjá hér að neðan:

Sigurvegarar Cannes 2014:

Palme d´Or
Winter Sleep – Nuri Bilge Ceylan

Grand Prix
The Wonders – Alice Rohrwacher

Besta leikkonan
Julianne Moore – Maps to the Stars

Besti leikarinn
Timothy Spall – Mr Turner

Besti leikstjórinn
Foxcatcher – Bennett Miller

Besta handrit
Andrei Zvyagintsev og Oleg Negin – Leviathan

Dómnefndarverðlaunin
Sameiginlega til: Mommy – Xavier Dolan og Goodbye to Language – Jean-Luc Godard

Caméra d´Or
Party Girl – Marie Amachoukeli, Claire Burger og Samuel Theis

Palme d’Or fyrir bestu stuttmynd
Leidi – Simon Meisa Soto

Sérstakar viðurkenningar
Aissa – Clément Tréhin-Lalanne og Yes We Love – Hallvar Witzo

Hér má sjá viðbrögð Peter Bradshaw hjá The Guardian gagnvart verðlaununum og hér er umfjöllun Cineuropa.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR