Myndirnar á Skjaldborg 2014 opinberaðar

skjaldborg-2014-logoFjölmargar nýjar íslenskar heimildamyndir líta dagsins ljós á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, sem fram fer á Patreksfirði um hvítasunnuna, 6.-9. júní. Meðal þeirra eru ný verk frá Kára Schram, Ara Alexander, Helga Felixsyni, Jóhanni Sigfússyni, Yrsu Roca Fannberg og mörgum fleirum.

Einnig verða sýnd brot úr nokkrum verkum sem enn eru í vinnslu, þar á meðal Keep Frozen eftir Huldu Rós Guðnadóttir og Helgu Rakel Rafnsdóttur (sem unnu Skjaldborgarverðlaunin 2008 fyrir Kjötborg), Óli prik eftir Árna Sveinsson og Nýjar hendur sem framleidd er af Guðbergi Davíðssyni og stjórnað af Erni Marinó Arnarsyni og Þorkatli Harðarsyni.

Tvær myndir eftir heiðursgest hátíðarinnar, rússneska heimildamyndasmiðinn Victor Kossakovsky, verða sýndar á hátíðinni; Wednesday 19.07.1961 og ¡Vivan las Antipodas! 

Myndirnar má skoða nánar hér, en að neðan eru það sem kalla má forvitnilegustu myndirnar:

Aumingja Ísland, ern eftir aldri | Ari Alexander Ergis Magnússon
Aumingja Ísland kallast á við heimildarmyndina Ern eftir aldri eftir Magnús Jónsson frá 1974 þar sem Fjallkonan er sannarlega ern eftir aldri og virðir fyrir sér svarthol íslensks ótta og gullfiska minnisleysis. Hver erum við? Hvaðan komum við? Og hvað sameinar þjóðina eftir 1140 ár frá landnámi?

Börn hafsins | Jóhann Sigfússon
Reyndu að halda í þér andanum í 5 mínútur, kafa niður á 30 metra dýpi og veiða þér fisk með spjóti – án nokkurra köfunargræja. Ómögulegt? Ekki fyrir Moken þjóðflokkinn, betur þekkta sem sjávarsígauna sem búa við strendur Thaílands. Þessi börn hafsins, einir slyngustu fiskveiðimenn sem uppi hafa verið, standa á tímamótum í dag þar sem þeir eru hægt og bítandi að missa dvalarstaði sína við strendurnar og hverfa inn í thaílenskt þjóðfélag.

Brot | Kári G. Schram
Þórður frá Dagverðará var íslensk alþýðuhetja. Hann var refaskytta og sægarpur, listmálari,skáld, rithöfundur, mannvinur, húmoristi og náttúruverndarsinni en þó umfram allt mikill sagnaþulur og einn frægasti Jöklari síns tíma. Þessi litríki og þjóðkunni maður fór sínar eigin leiðir, vann hörðum höndum alla tíð og skar sig úr fjöldanum með snjöllum tilsvörum og heimspeki sem mótuð var af striti þess sem þarf að bjarga sér sjálfur í hörðum heimi og löngum einverustundum í skauti náttúrunnar.

Crime Into the Future | Helgi Felixson, Titti Johnson
Kua og Teriki eru ástfangin og hyggjast gifta sig. Þau hafa komist að því að barn þeirra, Maoki, er veilt fyrir hjarta. Þá hafa sjö manns úr fjölskyldu Teriki fengið krabbamein. Ástæður þessa má rekja til nálægðarinnar við Moruroa þar sem Frakkar sprengdu 193 kjarnorkusprengjur á 30 ára tímabili. Þá er talin hætta á að Moruroa gæti fallið saman og valdið gríðarlegri flóðbylgju sem myndi kaffæra eyjuna þeirra. Ýmsir sérfræðingar telja að 2 – 3 tonn af plútóníum sé að finna undir Moruroa sem ógnar öllu Kyrrahafssvæðinu um margar næstu aldir.

Salóme | Yrsa Roca Fannberg
Listin var mikilvægur hluti æsku minnar og á meðan mamma vefaði eyddi ég mörgum stundum og fylgdist með henni í gegnum þræðina. Í dag er ég komin til Íslands til að fylgjast með henni í annað sinn – til að kvikmynda hana. Við höfum ekki búið undir sama þaki síðan ég var unglingur. Sjálf er ég barnlaus, með þann draum heitastan að búa til bíó. Mamma hefur ekki mikinn áhuga á að vera kvikmynduð. Hér takast ekki aðeins á móðir og dóttir, heldur leikstjóri og viðfangsefni með sinn eigin vilja. 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR