Á dögunum fór fram stofnfundur Hollvina RIFF. Félagsskapnum er ætlað að standa vörð um hagsmuni hátíðarinnar og styðja við uppbyggingu hennar auk þess sem félagar fá sérkjör á hátíðna, 15% afslátt af hátíðarpössum og aðgang að forsölu á vinsælustu viðburðum.
Aðild kostar ekkert og er öllum opin. Ekki verða innheimt félagsgjöld en haldin verður félagaskrá. Hægt er að skrá sig með því að senda póst og kennitölu á hollvinir@riff.is.
Stjórn Hollvina var mynduð þann 22. apríl, í stjórnina voru kosin þau Lilja Pálmadóttir, kvikmyndaframleiðandi og hestaræktandi, Ólafur Darri Ólafsson leikari, Rannveig Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri og athafnakona, Rannveig Grétarsdóttir, stjórnarmaður í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar og framkvæmdarstjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur og Sveinn Kjartansson, tæknistjóri og eigandi Stúdíó Sýrlands. Fulltrúi stjórnarinnar tekur sæti í stjórn RIFF.
Hollvinasamtökin halda aðalfund árlega þar sem farið verður yfir starfsemina og línur lagðar fyrir framtíðina.