Ný kitla fyrir kvikmyndina Borgríki II – blóð hraustra manna er komin á vefinn. Myndin verður frumsýnd þann 17. október næstkomandi.
Myndin er sjálfstætt framhald Borgríkis sem kom út árið 2011.
Myndin segir frá Hannesi, metnaðarfullum yfirmanni innra eftirlits lögreglunnar. Til að ráða niðurlögum stórra glæpasamtaka ákveður hann að rannsaka Margeir, spilltan yfirmann í fíkniefnadeild lögreglunnar, eftir að hafa fengið ábendingu frá Gunnari, fyrrum glæpaforingja, sem situr í fangelsi. Hannes afræður að koma ungri lögreglukonu, Andreu, í stöðu njósnara á ferðum Margeirs. Aðgerðirnar leiða Hannes á hálan ís þar sem erfitt reynist að halda skýru höfði eftir því sem hann kemst nær takmarki sínu, að ná bæði Margeiri og erlenda glæpaforingjanum.
Leikstjóri myndarinnar er Olaf de Fleur og skrifar hann handritið ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Í helstu hlutverkum eru Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Zlatko Krickic, Sigurður Sigurjónsson og Hilmir Snær Guðnason. Framleiðendur eru Kristín Andrea Þórðardóttir og Ragnar Santos.