Sú merka hátíð íslenskra heimildamynda, Skjaldborg, fer fram um hvítasunnuhelgina næstkomandi, 6. – 9. júní. Hátíðin mun að vanda fara fram í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði en þetta er í áttunda sinn sem hátíðin verður haldin.
Athygli vekur að hátíðin er nú aftur komin á sinn hefðbundna tíma um hvítasunnuna, en í fyrra var hún haldin í ágúst. Ástæðan mun vera sú að þá var stefnt að því að fá Werner Herzog sem heiðursgest hátíðarinnar, Um tíma var möguleiki að hann kæmist í ágúst og var hátíðin þá færð. Því miður varð þó ekki af heimsókn hans að sinni.
Skjaldborg hefur fyrir löngu sannað sig sem einn af mikilvægustu viðburðum í íslenskri kvikmyndagerð þar sem margar af áhugaverðustu heimildamyndum hafa verið frumsýndar á undanförnum árum.
Aðstandendur hátíðarinnar búast við að frumsýna milli 15 – 20 nýjar íslenskar heimildamyndir að þessu sinni. Opið er fyrir umsóknir til 1. maí og þar til gert umsóknarform má finna hér. Allar frekari upplýsingar er að finna á vef hátíðarinnar.