Sýningar á heimildamyndinni Dauðans alvara eftir Áslaugu Baldursdóttur verða í Bíó Paradís fimmtudag til laugardags kl. 18. Þetta er heimildarmynd sem fjallar um útfararþjónustu og þá starfsemi sem í henni er fólgin.
Fylgst er með Rúnari Geirmundssyni og sonum hans að störfum hjá Útfararþjónustunni í Reykjavík í eina viku. Útfararstjórinn fer með áhorfendur í gegnum hefðbundinn vinnudag og í gegnum það ferli sem óumflýjanlega fylgir dauðanum. Dauðinn sem er áþreifanlegur og alltumlykjandi í myndinni er skoðaður á óhefðbundinn hátt. Nálægðin við efnið er mikil og verða áhorfendur nánast þátttakendur í ferlinu.