Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra segist hallast að því að gera breytingar á áður ráðgerðum plönum um fjármögnun RÚV. Þetta kom fram í nýjum þætti Gísla Marteins Baldurssonar, Sunnudagsmorgunn, rétt áðan. Illugi segist vilja taka til baka fyrirhugaða 215 mkr. hækkun á framlagi úr ríkissjóði til RÚV, en jafnframt hætta við ákvarðanir um takmarkanir á auglýsingasölu stofnunarinnar.
Ráðherra segist búast að samkeppnisaðilar á sjónvarpsmarkaði muni ekki kætast við þessar fregnir, en hann vilji frekar setja skattféð til Háskólans í ljósi aðstæðna og heimila RÚV að sækja frekari tekjur á auglýsingamarkaði. Hann segist þó eftir að ræða málið betur við fjármálaráðherra og þingið.
Fyrirhugað var að takmarka mjög kostun hjá RÚV sem og að minnka auglýsingapláss úr tólf mínútum á klukkustund í átta mínútur að hámarki.
Þáttinn má sjá hér (í takmarkaðan tíma). Ummæli ráðherrans hefjast á mínútu 52:40.