spot_img

Morgunblaðið: „Málmhaus“ eftirminnileg mynd og sjónrænt mjög sterk

Myndin var frumsýnd 11. október hér á landi.
Myndin var frumsýnd 11. október hér á landi.

Hjördís Stefánsdóttir hjá Morgunblaðinu skrifar um Málmhaus Ragnars Bragasonar og gefur henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Hér er úrdrættir úr umsögn hennar:

„Upphafssenan er afar sláandi en hún er jafnframt sú langrismesta í myndinni. Í kjölfarið fylgir eiginlega aflíðandi spennufall. Þar greinir frá löngu og átakanlegu erfiðleikatímabili í lífi aðalpersóna sem er svo til lykta leitt með fullsnyrtilegri úrlausn alveg í blálokin. Myndin heldur áhorfendum samt hugföngnum út í gegn og margar senur eru ansi magnaðar þótt þær nái ekki að toppa þá fyrstu.“

Á öðrum stað segir Hjördís:

„Myndin er hádramatísk en reglulega er bryddað upp á góðu gríni í frásögninni sem léttir hana töluvert. Beljur Heru baula til að mynda af öllum lífs og sálar kröftum undir þungarokksflutningi hennar í eftirminnilegu atriði. Á öðrum stað húka þrír erlendir þungarokkarar, eins og álfar út úr hól, í aftursæti á smábíl og hyggjast hlýða á gott rokk úr græjunum en þeim að óvörum tekur tónlist Geirmundar Valtýssonar að óma. Kostulegustu brandararnir skrifast þó á afar vandræðalegan biðil Heru (Hannes Óli Ágústsson), sem finnst ekkert óheppilegt við það að tjá henni kynferðislegar langanir sínar með því að ræða við hana um atferli dýra.“

Og bætir síðan við:

„Málmhaus er eftirminnileg mynd og sjónrænt mjög sterk. Leikurinn er sömuleiðis góður. Þorbjörg Helga er augljóslega rísandi stjarna og tjáning hennar hispurslaus og kraftmikil. Halldóra og Ingvar eiga sömuleiðis bæði stórleik og það sama má segja um Svein Ólaf sem einhvern veginn nær alltaf að gæða persónur sínar einstöku lífi.“

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR