42% niðurskurður til kvikmyndagerðar – yfirlýsing stjórnar SKL vegna fjárlagafrumvarps

Stjórn Samtaka kvikmyndaleikstjóra (SKL) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fjárlagafrumvarps 2014 þar sem niðurskurður á kvikmyndasjóði er fordæmdur.

skl_logoSamtök kvikmyndaleikstjóra fordæma harkalega þann mikla niðurskurð sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Ef fram fer sem horfir er þetta stærsti einstaki niðurskurður sem greinin hefur orðið fyrir.

Þetta yrði mikið áfall, en á sama tíma illskiljanlegt. Í framhaldi af stóra niðurskurðinum árið 2010 virtist þverpólitísk samstaða um að auka þyrfti verulega fjárfestingu í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. vegna mikilla hagrænna áhrifa hennar. Íslensk kvikmyndagerð er atvinnugrein í örum vexti sem skapar mikil efnahagsleg og menningarleg verðmæti fyrir þjóðina.

Með tillögum sínum hefur ríkisstjórnin tekið pólitíska ákvörðun um að afþakka hreinar tekjur upp á hundruði milljóna. Rúmlega 200 ársverk tapast vegna þessarar ákvörðunar, þekkingarflótti verður úr greininni og auknar byrðar verða lagðar á ríki í formi atvinnuleysisbóta. En ekki síst verðum við af menningarverðmætum, fjölda verka á okkar tungumáli sem sprottin eru úr okkar veruleika. Við verðum af sögum sem taka þátt í að skapa sjálfsmynd okkar og eru veigamikill hluti í hinu andlega heilbrigðiskerfi.

Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig ímyndar- og gjaldeyrisskapandi. Það er nauðsynlegt að frumstuðningur komi að heiman, til að fjármagn náist að utan og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti, að hver króna sem ríkið fjárfesti margfaldist. Hér verður ekki uppskorið nema það sé sáð.

Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti, enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu með kvikmyndum sínum.

Það hefur tekið nokkur ár að græða þau sár sem urðu við niðurskurðinn 2010. Þau eru ekki fullgróin, en í greinina var komin aukinn kraftur og bjartsýni, eftir langa eyðimerkurgöngu var uppgangur framundan. Mannauður og fjármagn virtist nægjanlegt til þess að taka næstu skref, en aftur eru vopnin slegin úr höndunum á kvikmyndagerðarfólki og byrjunarreitur blasir við.

Það segir sig sjálft að uppbygging og áætlanagerð er öll úr skorðum. Við skorum á stjórnvöld að leiðrétta þessi áform áður en óbætanlegur skaði er skeður.

Stjórn samtaka kvikmyndaleikstjóra

2. október 2013

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR