Yfir 125 þúsund manns hafa séð „Eyjafjallajökull Erupts“

Sveinn M. Sveinsson kvikmyndagerðarmaður og Guðný A. Valberg húsfreyja á Þorvaldseyri við gígbarm Eyjafjallajökuls undir lok gossins.
Sveinn M. Sveinsson kvikmyndagerðarmaður og Guðný A. Valberg húsfreyja á Þorvaldseyri við gígbarm Eyjafjallajökuls undir lok gossins.

Heimildamynd Sveins M. Sveinssonar, Eyjafjallajökull Erupts, hefur verið sýnd í Gestastofunni á Þorvaldseyri undir jökli frá apríl 2011 eða í rúm tvö ár. Á þessum tíma hafa yfir 125.000 manns komið og séð myndina í 60 manna sal sem þar er að finna.  Myndin er 20 mínútur og er hægt að velja á milli 7 tungumála. Plús film og Eyrarbúið framleiða myndina, tónlist gerir Vilhjálmur Guðjónsson.

Klapptré spjallaði stuttlega við Svein um myndina:

„Kvikmyndin er til komin vegna þess að í byrjun gos hittumst við Ólafur á Þorvaldseyri í Heimalandi, þangað sem fólkið var flutt þegar það þurfti að yfirgefa heimili sín. Við sammæltumst um að ég myndaði reglulega og fylgdist með hvernig allt færi á Þorvaldseyri næstu mánuði. Við þekktumst vegna þess að ég hafði myndað kornrækt og fleira á bænum á árum áður þegar ég gerði 10 þátta röð um landbúnað á Íslandi um 1995. Í framhaldi af goslokum var átroðningur og örtröð ferðamanna svo mikill í kringum bæinn að vart varð komist til verka og Ólafur hafði á orði að það þyrfti að svala fróðleiksþorsta þessara ferðamanna með einhverjum hætti.

Um haustið ákváðu þau hjónin að breyta gamla bílaverkstæðinu, þar sem þau höfðu haft repjuvinnsluna, í sýningarhús. Handritið vann ég upp úr viðtölum sem ég hafði tekið við þau stuttu eftir goslok. Auk myndefnis sem ég tók sjálfur fékk ég myndefni frá félögum úr bransanum og Villi Guðjóns gerði tónlistina af sinni alkunnu snilld. Nú eru yfir 125 þúsund gestir búnir að sjá sýninguna í þessu gamla bílaverkstæði og sýningar orðnar á fjórða þúsund. Gestir hafa verið frá 2 upp í rúmlega 700 á dag. Upplifun áhorfanda er ekki síst fólgin í því að rekast á fólkið sjálft úr myndinni strax að sýningu lokinni og hafa þau oftar en ekki fengið innileg faðmlög frá áhorfendum í þakklætisskyni fyrir að veita þessu fóki hlutdeild í upplifun sinni við þessar hrikalegu aðstæður.“

Stiklu myndarinnar má sjá hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR