Gísli Snær: Hlakka til að starfa með kraftmiklum og klárum hópi hjá London Film School

Frá vinstri: Ingimar Björn Eydal, Sigríður Pétursdóttir og Gísli Snær Erlingsson í London Film School í mars 2017. Þau tvö fyrstnefndu ræddu við Gísla fyrir þáttinn Menninguna á RÚV.

„Ég hlakka til að vinna með þessum kraftmikla og klára hópi nemenda, kennara og annarra sem koma að skólanum,“ segir Gísli Snær Erlingsson, sem settur hefur verið skólastjóri London Film School, í spjalli við Klapptré. Gísli Snær segir helstu verkefnin framundan vera nýja námsskrá og flutningur frá miðborg London til austurhluta borgarinnar.

„Svo er líka gaman að segja frá því að núna eru tvö teymi nemenda úr skólanum við tökur á Íslandi, en það fer ekki framhjá neinum að Ísland og íslenskar kvikmyndir eru afar áberandi þessi misserin, maður hittir marga sem hafa séð slatta af íslenskum myndum og það er svolítið öðruvísi en áður var. Nemarnir úr London Film School njóta aðstoðar nemenda úr Kvikmyndaskóla Íslands við tökur og mig langar að þakka Hilmari Oddssyni rektor og Böðvari Bjarka Péturssyni stjórnarformanni skólans fyrir gott samstarf. Kvikmyndaskóli Íslands hefur verið að gera fína hluti og það er eftir því tekið hjá CILECT, samtökum helstu kvikmyndaskólanna. Ég vil líka þakka Pegasus Pictures fyrir þeirra aðstoð við þessi verkefni,“ segir Gísli Snær.

London Film School fagnaði á síðasta ári 60 ára afmæli sínu. Núverandi stjórnarformaður skólans er hinn víðkunni leikstjóri Mike Leigh, sem á sínum tíma stundaði nám við skólann. Meðal kunnra kvikmyndagerðarmanna annarra sem numið hafa þar eru leikstjórarnir Michael Mann (HeatMiami Vice) og Duncan Jones (Warcraft, Source Code) auk tökumannanna Tak Fujimoto (Silence of the Lambs) og Roger Pratt (Harry Potter and the Goblet of Fire).

Fjölmargir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa numið við skólann gegnum árin og má þar nefna Reyni Oddsson leikstjóra og handritshöfund, Guðnýju Halldórsdóttur leikstjóra og handritshöfund, Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóra og handritshöfund, Karl Óskarsson tökumann, Hrafnkel Stefánsson handritshöfund, Elísabetu Ronaldsdóttur klippara og Sigurð Sverri Pálsson tökumann.

Gísli nefnir einmitt í því sambandi að einn þeirra kennara sem starfað hafi undanfarin ár við skólann sé hinn kunni leikstjóri Les Blair, en hann var einmitt með Sigurði Sverri í sama skóla á sjöunda áratugnum og unnu þeir þá mikið saman. Gísli Snær og Sigurður Sverrir hafa unnið saman tvær bíómyndir sem leikstjóri og tökumaður; Benjamín dúfu og Ikingút.

„Það urðu því fagnaðarfundir með okkur þegar við uppgötvuðum að við áttum þennan sameiginlega vin,“ segir Gísli Snær og bætir við að samfélag kvikmyndagerðarmanna sé í rauninni mjög lítill heimur og að tengslin liggi víða.

Að neðan má sjá tvær stiklur sem unnar voru nýlega fyrir skólann undir stjórn Gísla Snæs:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR