Óvenju mörg verk íslenskra kvikmyndagerðarmanna eru í sýningum þessa dagana eða alls tíu talsins. Þarna má finna bíómyndir, heimildamyndir, leiknar þáttaraðir og heimildaþáttaraðir. Einnig er óvenjulegt að kvenkyns höfundar standa að baki flestum þessara verka.
"Með markvissari stefnu og skipulagðara upplýsingaflæði gæti Svona fólk verið meira fræðandi heimildarmynd," segir Sólveig Johnsen hjá Engum stjörnum um þessa heimildamynd Hrafnhildar Gunnarsdóttur, en bætir við að "það sem stendur upp úr eru sögur viðmælendanna – sögur sem ættu að heyrast miklu oftar – og mikilvægt starf í þágu söguskráningar hinsegin samfélagsins á Íslandi."
Heimildarmyndin Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur var frumsýnd í Bíó Paradís í gær en almennar sýningar hefjast í dag. Myndin fjallar um baráttu íslenskra homma og lesbía fyrir fullum lagalegum mannréttindum. Sú saga er um margt sérstök og óvenjuleg segir í kynningu, en fáir minnihlutahópar hafa náð jafn langt á eins skömmum tíma og fá samfélög í heiminum tekið eins snöggum stakkaskiptum.