RÚV hefur kynnt væntanlega vetrardagskrá sína í nýrri stiklu. Meðal efnis í vetur verða þrjár íslenskar þáttaraðir, Verbúð, Vitjanir og þriðja syrpa Ófærðar.
Von er á allt að þrettán íslenskum bíómyndum og átta þáttaröðum á árinu 2021. Fari svo, hafa verk af þessu tagi aldrei verið fleiri á einu ári. Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við. Jafnframt eru ellefu heimildamyndir nefndar til sögu en búast má við að þær verði fleiri.
Netflix, RÚV og ZDF, ein stærsta sjónvarpsstöð Þýskalands, koma að framleiðslu þriðju syrpu þáttaraðarinnar Ófærð, sem nú kallast Entrapped. Tökur standa yfir.
Þrátt fyrir kórónavírusfaraldurinn og þær takmarkanir sem honum fylgja, standa íslenskir kvikmyndagerðarmenn í ströngu, en útlit er fyrir að allt að tíu bíómyndir og níu þáttaraðir verði í tökum á árinu. Aldrei áður hafa jafn mörg verkefni af þessu tagi verið í tökum á tilteknu ári.