Um þessar mundir má sjá nokkurn hóp íslenskra leikara bregða fyrir í alþjóðlegum kvikmynda- og sjónvarpsverkum. Í sjálfu sér ekkert nýtt nema hvað þeir eru óvenju margir þessa dagana. Þarna eru Tómas Lemarquis, Ólafur Darri Ólafsson, Ingvar E. Sigurðsson, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Salóme Gunnarsdóttir, Ívar Örn Sverrisson, María Birta Bjarnadóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson.
Jóhannes Haukur Jóhannesson mun leika í kvikmyndinni The Sisters Brothers sem franski leikstjórinn Jacques Audiard gerir, en hann hlaut Gullpálmann í Cannes 2015 fyrir kvikmyndina Dheepan. Jake Gyllenhaal, Joaquin Phoenix, John C. Reilly og Riz Ahmed (The Night of) fara með helstu hlutverk.
Tökur standa nú yfir á þáttaröðinni Stellu Blómkvist í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Þættirnir eru byggðir á samnefndum bókum eftir samnefndan hulduhöfund. Heiða Rún Sigurðardóttir (Poldark) fer með aðalhlutverkið, en Sagafilm framleiðir fyrir Sjónvarp Símans. Þættirnir eru væntanlegir í haust.