Sólveigar Anspach verðlaunin voru veitt í fjórða sinn á dögunum en þeim er ætlað að styðja við kvikmyndagerðarkonur frá Frakklandi og Íslandi sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerðarlistinni. Í ár hlutu stuttmyndirnar Blaðberinn eftir Ninnu Pálmadóttur og Undir berkinum eftir Éve-Chems-de Brouwer hnossið. Menningin á RÚV ræddi við þær.
Óvæntir atburðir, ástabrall og samskipti kynjanna, ranglæti og réttarmorð, absúrdismi, ráðabrugg og glæpaverk eru meðal viðfangsefna í kvikmyndum 20. frönsku kvikmyndahátíðarinnar, sem fram fer í Bíó Paradís frá 24. janúar til 2. febrúar. Mynd af brennandi stúlku (Portrait d‘une jeune fille en feu) eftir Céline Sciamma og Ég ákæri (J‘accuse) eftir Roman Polanski eru hápunktar úrvalsins.
Kvikmyndaverðlaun Sólveigar Anspach verða veitt í fjórða sinn á Frönsku kvikmyndahátíðinni sem hefst 24. janúar. Að þessu sinni bárust hvorki fleiri né færri en 100 stuttmyndir í keppnina. Verðlaununum er ætlað að hvetja konur til dáða í kvikmyndagerð og eru veitt konum sem eru að stíga sín fyrstu skref í leikstjórn og eiga mest þrjár myndir að baki. Ein verðlaun verða veitt fyrir bestu stuttmynd á íslensku, önnur fyrir þá bestu á frönsku.