Baltasar Kormákur segir að mynd hans Everest hafi fengið góðar viðtökur á frumsýningu á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í kvöld. Henni hafi verið fagnað með lófataki í lokin. Baltasar segir þetta það langstærsta sem hann hafi upplifað. RÚV greinir frá.
Fjölmargir miðlar hafa birt umsagnir um Everest Baltasars Kormáks sem er opnunarmynd Feneyjahátíðarinnar nú í kvöld. Myndin er sem stendur með 75% skor á Rotten Tomatoes, sem þýðir að jákvæðar umsagnir eru í miklum meirihluta.
Todd McCarthy, hinn gamalreyndi gagnrýnandi The Hollywood Reporter, segir margar góðar ástæður til að sjá Everest Baltasars Kormáks. Myndin sé kraftmikil og vel gerð, myndrænar brellur séu afar vel leystar og fái mann til að finnast sem maður sé kominn á fjallið, auk þess sem hinu fjölmenna persónugalleríi séu gerð sannfærandi skil þannig að maður láti sig örlög þeirra varða. Hann telur að Universal geti bætt þessari mynd á lista sinn yfir metsölumyndir, en fyrirtækið hefur átt óvenju gott ár hvað varðar árangur í miðasölunni.
Helstu erlendu kvikmyndamiðlarnir hafa fjallað um valið á Everest Baltasars sem opnunarmynd Feneyjahátíðarinnar og benda á að þetta þyki mikið hnoss fyrir myndina og auki möguleika hennar við væntanlegar Óskarstilnefningar.
Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks verður opnunarmynd Feyneyjahátíðarinnar sem fram fer 2.-12. september næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur leikstjóri á opnunarmynd einnar virtustu kvikmyndahátíðar heims.