Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambíóunum. Vísir segir frá. Fjarskiptafyrirtækið Nova mun taka við húsnæðinu og flytja þangað sínar aðalstöðvar í byrjun árs 2027.
Sam-félagið, sem rekur Sambíóin, mun þó halda rekstri kvikmyndahúsanna áfram af fullum krafti bæði í Kringlunni og Egilshöll, sem og á Akureyri. Haft er eftir Alfreð Ásberg Árnasyni hjá Sambíóunum að það sé auðvitað sárt að kveðja Álfabakka. „En við lítum á þetta sem eðlilega þróun. Bíórekstur hefur breyst mikið á undanförnum árum og við erum einfaldlega að færa starfsemina þar sem hún þjónar viðskiptavinum best,“ segir Alfreð. „Við viljum að fólk komi og kveðji húsið með okkur, njóti þess eins og það hefur alltaf gert. Það verður frábær kvikmyndavetur fram að síðustu sýningu,“ segir hann ennfremur.
Fram kemur að áður en heimsfaraldurinn hafi skollið á fyrri hluta árs 2020 hafi staðið til að taka alla salina í Álfabakka í gegn og hafi verið búið að tryggja fjármagn í það verkefni. Þá hafði þegar verið of mikið framboð af sætum í Reykjavík, sem gerði samkeppnina harða og þrengdi rekstrarskilyrði bíóhúsa. Framboð sætisrýma og háar leigur hafa verið áskorun á markaðnum, en Alfreð segir fyrirtækið líta bjartsýnum augum fram á veginn. „Það er mikið af spennandi kvikmyndum á leiðinni frá frábærum leikstjórum og við hlökkum til að taka á móti ykkur í Sambíóunum Kringlunni, Egilshöll og á Akureyri.“
Bíóhöllin gerbreytti íslenskri bíómenningu
Kvikmyndahúsið opnaði 1982 og hét upphaflega Bíóhöllin. Það gerbreytti íslenskri bíómenningu. Bíóhöllin var fyrsta íslenska kvikmyndahúsið til að sýna reglulega glænýjar bandarískar kvikmyndir. Lengi hafði þá tíðkast að sýna kvikmyndir um ársgamlar og jafnvel eldri, þannig að þetta hafði mikil áhrif á kvikmyndaupplifun Íslendinga.
Þarna hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins verið frá upphafi. Það er því flaggskip Sambíóanna, sem einnig reka kvikmyndahús í Kringlunni og í Egilshöll í Grafarvogi, auk bíós á Akureyri. Fyrir um ári lokaði fyrirtækið Nýja bíói í Keflavík (Sambíóin Keflavík) eftir 87 ára starfsemi. Það var fyrsta kvikmyndahúsið í eigu fjölskyldunnar sem kennd er við Sambíóin og hefur nú rekið bíó í fimm ættliði.
Orðrómur hefur lengi verið á kreiki um breytingar hjá Sambíóunum. Fyrr á árinu seldi fyrirtækið fasteignina í Mjódd.
Kvikmyndahúsaaðsókn á Íslandi hefur ekki náð þeim fjölda sem var fyrir Covid og stefnir í að samdráttur verði í ár frá síðasta ári.
Athugasemd: Fréttin hefur verið uppfærð. Áður var sagt að Sambíóin myndu loka í árslok 2026.














