Á vef RÚV segir:
Þegar Kvikmyndaskóli Íslands var að verða gjaldþrota á vormánuðum vaknaði spurning hjá embættismanni í menntamálaráðuneytinu um hvað ætti að gera við nemendurna? Væri endilega gott að þeir héldu áfram námi sínu undir merkjum Kvikmyndaskóla Íslands? Hvers konar prófgráðu væru þeir að útskrifast með? Hvers virði væri hún og hvað stæði á námskírteininu?
Gögn sem fylla líklega heila bók
Spegillinn óskaði fyrir nokkru eftir öllum gögnum um mál Kvikmyndaskóla Íslands hjá háskólaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu. Þetta eru minnisblöð og ógrynni af tölvupóstum sem fylla eflaust heila bók.
Kvikmyndaskólinn var stofnaður fyrir rúmum þrjátíu árum og stofnendur hans gengu lengi með þann draum að hann yrði Kvikmyndaháskóli. Í fyrstu var leitað eftir samstarfi við aðra íslenska háskóla. Háskóli Íslands gaf út viljayfirlýsingu árið 2015 um hugsanlegt samstarf en dró hana til baka fjórum árum seinna.
Í stað þess að gefa drauminn um háskóla upp á bátinn var ákveðið að sækjast eftir viðurkenningu sem háskóli í byrjun árs 2020. Þetta átti að vera skóli með fjögur hundruð nemendum, hingað áttu að streyma erlendir stúdentar til að læra kvikmyndanám með tilheyrandi gjaldeyristekjum sem gætu numið hálfum milljarði árið 2024. Eða þannig kynnti Böðvar Bjarki Pétursson, stofnandi Kvikmyndaskólans og stjórnarformaður, þetta fyrir embættismönnum í tölvupósti fyrir fimm árum.
Jón Steinar fenginn til að þrýsta á ráðuneytið
Eftir að lög um háskóla tóku gildi 2006 hafði það aldrei gerst að framhaldsskóla væri veitt viðurkenning sem háskóli og það er augljóst að forsvarsmenn skólans og mennta- og menningarmálaráðuneytið höfðu ólíka sýn á hversu hratt þetta ferli gæti gengið fyrir sig.
Kvikmyndaskólinn tefldi fram Jóni Steinari Gunnlaugssyni, einum reyndasta lögmanni landsins og fyrrverandi hæstaréttardómara, til að þrýsta á ráðuneytið að klára umsóknina enda töldu þeir ákaflega mikilvægt að þessari viðurkenningu yrði flýtt – miklir hagsmunir nemenda væru í húfi.
Í minnisblaði sem Friðrik Þór Friðriksson, þá rektor, og Böðvar Bjarki sendu ráðuneytinu í janúar 2021 sögðu þeir að skólakerfið væri að brjóta á nemendum skólans með því að meta ekki nám þeirra með réttum hætti, skólinn væri að útskrifa stúdenta úr námi sem uppfyllti grunnnám háskólastigs en fengju það ekki metið.
Menntamálaráðuneytið sagði hins vegar að ferlið væri flókið, tímafrekt og umfangsmikið. Þetta kemur meðal annars fram í samskiptum aðstoðarmanns Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, við Jón Steinar.
Þar leggur aðstoðarmaðurinn líka áherslu á að réttar upplýsingar séu uppi á yfirborðinu, að nemendur og starfsfólk hafi raunhæfar væntingar til þess máls. „Meðan þið eruð ekki með viðurkenningu um að vera háskóli þá er ekki hægt að innrita nemendur í háskólanám eða gefa þeim væntingar um slíkt,“ skrifar aðstoðarmaðurinn til Jóns Steinars. Henni þótti ekki mikið til framkomu lögmannsins koma í símtali sem þau áttu skömmu áður, fannst hún ekki sæma lögmanni og væri hvorki honum né öðrum til framdráttar.
Jón Steinar hafnaði þessu en tölvupóstar sýna engu að síður að hann gekk hart fram fyrir hönd Kvikmyndaskólans á þessum fyrstu mánuðum og hikaði ekki við að segja embættismönnum og ráðherrum til syndanna þegar honum þótti þeir ekki standa sig í stykkinu eða fannst stjórnsýslan svifasein. „Þú ættir kannski bara að hætta í pólitík og fara að vinna við eitthvað sem öllum líkar,“ skrifaði Jón Steinar í tölvupósti til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þegar hún var háskólaráðherra.
Gjörólík sýn á niðurstöðu um skólann sem háskóla
Afgreiðsla ráðuneytisins á umsókn skólans tók drjúgan tíma; ferðabann vegna COVID setti strik í reikninginn því matsnefnd sem meta átti skólann þurfti að vera skipuð erlendum sérfræðingum. Kvikmyndaskólanum fannst hann grátt leikinn af stjórnsýslunni og vantreysti embættismönnum í háskólaráðuneytinu og öllu ferlinu.
Þegar ráðuneytið réð Hrein Loftsson til að vera sérstakan tengilið við þetta verkefni í maí 2022 virtist það duga til að lægja öldurnar í bili en það breyttist þegar erlendu sérfræðingarnir skiluðu sínu mati í desember það ár.
Ráðuneytið taldi niðurstöðu sérfræðinga vera að Kvikmyndaskólinn uppfyllti ekki gildandi viðmið til að mega kalla sig háskóla – mat Böðvars Bjarka og lögmanna skólans var hins vegar að skólinn hefði staðist prófið – aðeins þyrfti minni háttar lagfæringar.
„Sæll Hreinn – nú liggur fyrir staðfesting á því að Kvikmyndaskólinn starfi á háskólastigi,“ skrifar Böðvar Bjarki til Hreins Loftssonar í desember. Böðvar spyr hver séu næstu skref og nú þurfi að hafa hraðar hendur.
Lögfræðingur ráðuneytis fær nóg af fullyrðingum Kvikmyndaskólans
Í nánast öllum tölvupóstum sem sendir eru háskólaráðuneytinu lýsir Böðvar Bjarki þessari skoðun sinni; að skólinn uppfylli þau skilyrði til að hljóta viðurkenningu sem háskóli. Og alltaf svarar háskólaráðuneytið að þetta sé á misskilningi byggt: vilji skólinn halda áfram með sína umsókn þurfi hann að leita eftir samstarfi við viðurkenndan háskóla sem bæri faglega ábyrgð á háskólanáminu.
Raunar virðist lögfræðingur í háskólaráðuneytinu fá sig fullsaddan af fullyrðingum um að ráðuneytið standi í vegi fyrir viðurkenningu skólans sé eitthvað ljón á veginum. Í tölvupósti sem sendur er á stóran hóp fólks í byrjun október segir hann það hafa legið fyrir lengi að skólinn sjálfur og námið við hann uppfylli ekki faglegar kröfur til að hljóta viðurkenningu sem háskóli og þetta hafi ítrekað komið fram á fundum, samtölum og svörum ráðuneytisins.
„Það er takmark fyrir því hvernig hægt er að sitja undir þeim málflutningi og ásökunum sem Kvikmyndaskólinn hefur haft uppi á hendur ráðuneytinu í þessu máli,“ skrifar starfsmaðurinn í tölvupósti. Staða málsins, meðferð þess og mögulegar afleiðingar séu alfarið á ábyrgð Kvikmyndaskólans.
Böðvar Bjarki svarar bréfinu, segir starfsmanninn hafa talað skólann niður og næsta skref sé að virkja eftirlitsskyldu Alþingis og fagfélög nemenda. Nokkrum mánuðum síðar krefst Böðvar þess í bréfi til Loga Einarssonar háskólaráðherra að viðkomandi starfsmaður verði áminntur fyrir framgöngu sína í máli Kvikmyndaskólans.
Fjárhagsvandræði sliga skólann
Á sama tíma og þessu þrátefli stóð glímdi Kvikmyndaskólinn líka við fjárhagsvandræði sem forystumenn hans fullyrtu að mætti rekja beint til þess að honum hefði verið haldið í gíslingu með umsókn sinni um háskólaviðurkenningu. Það hefði meðal annars leitt til þess að námið væri ekki lengur lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna með tilheyrandi brottfalli eftir að Listaháskólinn hóf að bjóða upp á kvikmyndanám.
Sem einkaskóli á framhaldsskólastigi heyrði Kvikmyndaskólinn undir mennta- og barnamálaráðuneytið. Og þegar viðurkenning Kvikmyndaskólans sem slíkur rann út í desember 2022 og forystumenn skólans sýndu engan áhuga á að endurnýja þá stöðu var ráðuneytið hikandi við að láta meira fé renna til skólans.
Síðasta haust var staðan orðin sú að skólann vantaði háar fjárhæðir til að greiða lausaskuldir, meðal annars leigu, yfirdrátt og almennar rekstrarskuldir. Tölur eins og tvö hundruð milljónir voru nefndar í tölvupóstum en skólanum var á endanum bjargað fyrir horn í nóvember, skömmu fyrir kosningar, með viðauka upp á 75 milljónir. Óleystur vandi skólans beið því nýrra ráðherra.
Háskólaráðherra reynir að koma til bjargar
Gögnin benda til þess að Logi Einarsson háskólaráðherra hafi reynt að finna leiðir til að koma skólanum til bjargar; í janúar lagði ráðuneyti hans til tvær leiðir um hvernig mætti tryggja áfram lánshæfi nemenda hjá Menntasjóði, annaðhvort með umsókn um viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi eða að viðurkenndur háskóli skrifaði undir samstarfsyfirlýsingu um nám á háskólastigi.
Starfsmenn ráðuneytisins virtust ekki bjartsýnir. Hafa þyrfti í huga að stjórnendur Kvikmyndaskólans túlkuðu allt sem sagt væri á þann hátt sem þeir væru sjálfir sáttir við, sagði lögfræðingur í ráðuneytinu.
Skólinn freistaði þess líka að sækja fé til Ásthildar Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra og þegar öll sund voru að lokast féllst hann á endanum að sækja um tímabundna viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi.
Gögnin benda til þess að Áshildur Lóa hafi ekki haft mikinn áhuga á því að framlengja líf skólans enn frekar; um miðjan febrúar fær aðstoðarmaður háskólaráðherra þær upplýsingar frá ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu að Kvikmyndaskólinn fái ekki flýtimeðferð eða fyrirframgreiðslu. Níu dögum seinna er umsókn skólans um tímabundna viðurkenningu sem framhaldsskóli hafnað á þeim forsendum að hann hafi ekki skilað tilskyldum fjárhaldsgögnum.
Sagði ráðherra hafa stjórnast af hagsmunaöflum
Þrátt fyrir stöðugar bréfaskriftir Böðvars Bjarka til ráðamanna og embættismanna, þar sem finna má yfirlýsingar um að gjaldþrot skólans gjaldfelli námsgráður sex hundruð starfandi kvikmyndagerðarmanna, eru örlög skólans ráðin.
„Ég er ráðþrota varðandi hvað skuli segja nemendum. Bið ykkur í öllum bænum að senda okkur eitthvað,“ skrifar Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans í tölvupósti til aðstoðarmanns Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra.
Daginn eftir berst svar frá ráðuneytinu; skólinn sé ekki með gildandi viðurkenningu, námið sé ekki á framhaldsskólastigi en ráðuneytið sé reiðubúið að styðja við nemendur skólans.
Nemendum er síðan tryggð útskrift og Rafmennt tekur við rekstrinum; aðgerð sem Böðvari Bjarka fannst til marks um að ráðherrar hefðu látið undan þrýstingi frá hagsmunasamtökum sem hann taldi tengjast með beinum eða óbeinum hætti. „Eigendurnir áttu aldrei möguleika gegn þessari eignaupptöku,“ skrifar hann í tölvupósti til embættismanns í maí.













