KULDI sýnd á RÚV um páskana sem þáttaröð í fjórum hlutum

Um páskana verður kvikmyndin Kuldi sýnd á RÚV í lengri útgáfu, fjögurra þátta seríu. Leikstjórinn segist hafa vitað frá upphafi að þau væru með mjög mikið efni í höndunum og fann huggun í því að vita að einn daginn fengi það að njóta sín.

Rætt var við Erling Óttar Thoroddsen leikstjóra í Síðdegisútvarpinu á Rás 2:

„Þetta er mjög spennandi. Við erum að fara frumsýna í sjónvarpinu á RÚV nýja útgáfu af myndinni, lengri útgáfu sem verður sýnd í fjórum þáttum og er meira en tvöfalt lengri en myndin sem kom út í bíó,“ segir Erlingur Thoroddsen leikstjóri í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Sýnd verða áður óséð atriði og lengri útgáfur af þeim sem voru í kvikmyndinni. „Þó þetta sé sama saga þá er þetta splunkuný og mjög spennandi útgáfa.“

Sáu fljótt að þau væru með mjög mikið efni í höndunum

Erlingur segir tökur á myndinni hafa verið svolítið sérstakt ferli vegna þess að þau sem þekkja til Kulda vita að þarna eru tvær sögur á mismunandi tímabilum sem fléttast saman, önnur gerist í nútímanum og hin í fortíðinni.

„Við tókum nútímahlutann um sumar og eftir það sá ég mjög fljótlega að við erum með rosalega mikið af efni. Bara að klippa það saman, þá vorum við komin með meira en vel langa mynd í fullri lengd.“

Þau hafi því farið að ræða hvaða möguleikar væru í boði og ákváðu að halda sig við upprunalegt plan, að fylgja handritinu eins og það var og setja það svo síðan saman. „En með það í bakvasanum að kannski kemur einhvern tímann út lengri útgáfa.“

„Þannig að þetta var smá flókið ferli, að gera þetta allt. En að lokum gerðum við þessa bíóútgáfu sem þið sáuð í bíó. En við vorum með alveg slatta af rosalega góðu efni sem mér fannst persónulega mjög erfitt að taka út úr bíóútgáfunni en vissi samt að á endanum myndi þetta líta dagsins ljós.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR