Þetta kemur fram á Vísi og þar segir einnig:
Greint var frá því í lok mars að rekstrarfélag Kvikmyndaskóla Íslands væri farið í gjaldþrotameðferð. Hlín Jóhannsdóttir, rektor skólans, sagði ríkan vilja vera fyrir því að færa málefni skólans frá mennta- og barnamálaráðuneytinu yfir í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Í dag var greint frá því að starfsmenn, sem hefðu ekki fengið laun í tvo mánuði, hefðu einnig greitt sjálfir rafmagnsreikning skólans. Starfsmennirnir vildu þá einnig meina að Guðmundur Ingi Kristinsson, barna- og menntamálaráðherra, stæði í vegi fyrir að skólanum yrði bjargað.
Í tilkynningu frá barna- og menntamálaráðuneytinu segir að með því að koma nemendunum inn hjá Tækniskólanum sé verið að koma til móts til þá með það að markmiði að mennta þau til brautskráningar í sínu fagi.
„Það er mat stjórnenda Tækniskólans að kjarnastarfsemi skólans og þekking starfsfólks geri þessa yfirfærslu mögulega. Þá er fjölbreytileiki náms í Tækniskólanum mikill kostur fyrir jafn skapandi nám og um ræðir,“ segir í tilkynningunni.
Einnig verður unnið að gerð nýrrar námsbrautar innan Tækniskólans í kvikmyndagerð byggt á kvikmyndatækni, verkefnastjórn, framleiðslu og handritsgerð. Tilgangurinn sé að mennta fólk á framhaldsskólastigi „í ört vaxandi kvikmyndaiðnaði á Íslandi.“