Þáttaröðin Reykjavík Fusion frá Act 4 verður heimsfrumsýnd á Cannes Series hátíðinni sem fer fram í lok apríl. Fyrirtækið er með tvær aðrar seríur í undirbúningi.
Reykjavík Fusion er fyrsta þáttaröðin frá Íslandi sem valin er til frumsýningar á Cannes Series, en hún verður sýnd í Sjónvarpi Símans í haust.
Cannes series hátíðin er haldin árlega hvert. Átta þáttaraðir frá ýmsum löndum eru valdar eru til sýningar og keppa í aðalkeppni hátíðarinnar um viðurkenningar í nokkrum flokkum.
Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir fara með aðalhlutverkin í þáttaröðinni, sem fjallar um matreiðslumeistara sem kemur úr fangelsi og neyðist til að slá lán hjá undirheimakóngi til að stofna flottasta veitingastað Reykjavíkur. Hera leikur rekstrarstjóra veitingastaðarins sem nýtir sér einfeldni matreiðslumeistarans til að vinna að eigin hagsmunum. Saman sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í undirheimum Reykjavíkur þar sem hvert rangt spor getur reynst dýrkeypt.
Í seríunni leika einnig Þröstur Leó Gunnarsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson, Guðjón Davíð Karlsson og Unnur Birna Backman.
Reykjavík Fusion er leikstýrt af Samúel Bjarka Péturssyni og Gunnari Páli Ólafssyni sem kunnir eru fyrir gerð auglýsinga. Meðframleiðendur eru franska og þýska sjónvarpsstöðin Arte, Wild Sheep Content, framleiðslufyrirtæki Erik Barmack og íslenska framleiðslufyrirtækið SKOT Productions.
Nýjar þáttaraðir í burðarliðnum hjá Act 4
Reykjavik Fusion var sýnd kaupendum í dagskránni Buyers Upfront á nýafstaðinni Series Mania hátíðinni ásamt níu öðrum seríum.
Act4 kynnti einnig annað verkefni á Series Mania, þáttaröðina Wool. Þáttaröðin, sem byggir á sönnum atburðum, segir frá ótrúlegri velgengni serbnesku Sirogojno-peysanna – einstaka handprjónaðra flíka úr íslenskri ull sem náðu heimsfrægð á síðari hluta 20. aldar.
Þáttaröðin er samvinnuverkefni íslenskra og serbneskra handritshöfunda og framleiðanda og tvinnar saman sögu, tísku og menningu í þáttaröð sem sýnir hvernig smábær í Austur-Evrópu varð að miðpunkti tískubylgju á 7. áratugnum, allt í gegnum handverk kvenna sem nýttu íslenska ull sem hráefni sitt.
Þáttaröðin er gerð í samstarfi Act 4, serbneska framleiðslufyrirtækisins Film Road Productions og Dönnu Stern hjá In Transit Productions. Serbneski framleiðandinn og handritshöfundurinn Milena Dzambasovic er höfundur seríunnar, en Milla Ósk Magnúsdóttir er meðal handritshöfunda.
Bless bless Blesi (Death of a Horse)
NEW8, samstarf átta evrópskra sjónvarpsstöðva, tilkynnti á dögunum um fjármögnun nýrra þáttaraða. Þeirra á meðal er þáttaröðin Bless Bless Blesi (Death of a Horse) frá Act 4 og er þetta fyrsta íslenska verkefnið sem hlýtur NEW8 styrk.
New8 er samstarf allra norrænu sjónvarpsstöðvanna, DR, SVT, NRK, YLE, RÚV auk ZDF í Þýskalandi, NPO í Hollandi og VRT í Belgíu.
Bless bless Blesi segir frá knapanum Auði sem mætir á landsmót hestamanna með stóðhestinn Blesa. Þau sýna snilldartakta og Blesi er sigurstranglegasta hrossið fyrir loka umferðina. Að morgni keppnisdags finnst Blesi dauður í hesthúsinu. Lögreglan í sveitinni neitar að rannsaka málið enda ekki um morð að ræða þegar hestur er drepinn. Auður ákveður upp á eigin spýtur að rannsaka samfélag íslenskra keppnishestamanna í leit að hrossamorðingjanum.