Menningin er frí og ríkissjóður græðir, samkvæmt nýrri úttekt á skattaáhrifum kvikmyndagerðar

Kvikmyndagreinin skilar miklu meiri tekjum í ríkissjóð en nemur samanlögðum styrkjum og endurgreiðslum til hennar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Reykjavík Economics hefur unnið fyrir SÍK.

Í tilkynningu frá SÍK segir um skýrsluna (hana má lesa hér):

Upplýsingar um bein skattaáhrif kvikmyndagreinarinnar hafa ekki legið fyrir og því fékk SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics til að gera úttekt á skattaáhrifum greinarinnar. Fyrirtækið hefur áður unnið sambærilegar úttektir fyrir t.d. ferðaþjónustuna og iðnaðinn.

Niðurstöður skýrslunnar koma ef til vill einhverjum á óvart, en árið 2023 var skattalegt framlag kvikmyndagreinarinnar 7,4 milljarðar kr. með virðisaukaskatti en styrkir til kvikmyndargerðar og kvikmyndanáms námu samtals 4,7 milljörðum. Með öðrum orðum; greinin greiddi 1,6 sinnum meira í beina skatta en hún þáði í fjárfestingu og styrki frá hinu opinbera.

Á undanförnum árum hefur kvikmyndagreinin vaxið hratt. Árið 2008 var velta í framleiðsluhluta greinarinnar um 4,5 milljarðar en í fyrra er áætlað að veltan hafi verið um 35 milljarðar sem nemur nær 700% veltuaukningu. Kvikmyndagreinin er annars vegar iðnaður og hinsvegar listgrein og hefur þannig nokkra sérstöðu meðal atvinnugreina.

Á árunum 2019-2023 fjárfesti hið opinbera að meðaltali um þremur milljörðum árlega í endurgreiðslum og um 1,5 milljarði í Kvikmyndasjóði. Á sama tíma skilaði greinin að meðaltali um 7 milljörðum árlega í beina skatta. Í einfaldaðri mynd snúa endurgreiðslur vegna kvikmynda að iðnaðarhlutanum og framlög úr Kvikmyndasjóði að listræna og menningarhluta greinarinnar, þeim íslenska. Greinin hefur byggst upp í að vera stór atvinnugrein sem ungt fólk sækist eftir að starfa í og byggir á mörgum sjálfstæðum framleiðslufyrirtækjum af alls konar stærðum og gerðum.

Áhrif kvikmyndaframleiðslu hefur verið kortlögð ítarlega, m.a. í skýrslu Olsberg sem menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnti í apríl 2024. Þar kom í ljós að efnahagsleg áhrif endurgreiðslu af kvikmyndagerð eru metin þannig að hver króna af framlagi hins opinbera magnast í 6,7 krónur í hagkerfinu. Ferðamálastofa hefur áætlað að 37,4% ferðamanna sem hingað sækja hafi fengið hugmyndina vegna þess að þeir sáu íslenskt landslag í kvikmynd eða sjónvarpsefni.

Íslensk kvikmyndaframleiðsla nýtur styrkja frá Kvikmyndasjóði, auk endurgreiðslu að hluta. Sú kvikmyndaframleiðsla er á forsendum menningar og kvikmyndaverk sem njóta stuðnings eru á íslensku. Hróður íslenskra kvikmyndaverka hefur borist um allan heim og hafa þau mörg hver víða notið vinsælda í kvikmyndahúsum og sjónvarpi sem og á leiðandi kvikmyndahátíðum. Framlag úr Kvikmyndasjóði er að meðaltali innan við 40% af framleiðslukostnaði kvikmynda og forsenda þess að laða að frekari erlendan stuðning og fjármagn fyrir verk á íslensku.

Það er því ljóst að kvikmyndagreinin skapar ríkisjóði beinar skatttekjur umfram fjárfestingu, hefur mikil ruðningsáhrif og er grein sem laðar að ungt fólk. Með lækkuðum framlögum í Kvikmyndasjóð hefur tækifærum íslenskrar kvikmyndagerðar fækkað og þar með gengið beint á íslenska menningu. Með þessar niðurstöður ætti það að vera auðveld ákvörðun hins opinbera að hækka aftur framlög í Kvikmyndasjóð þannig að þau endurspegli áætlanir sem unnar voru í tengslum við Kvikmyndastefnu 2020-2030. Menningin er frí og ríkissjóður græðir.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR