spot_img

Högni Egilsson tilnefndur til norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna fyrir tónlistina í SNERTINGU

Högni Egilsson er tilnefndur til Hörpu-verðlaunanna, sem samtök norrænna kvikmyndatónskálda veita ár hvert, fyrir tónlistina í kvikmyndinni Snertingu eftir Baltasar Kormák.

Snerting byggist á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Fjallar hún um ekkil sem leggur upp í ferð án fyrirheits í von um að finna skýringu á því hvað orðið hafi um kærustu hans sem hvarf sporlaust frá London 50 árum áður. För hans leiðir hann yfir hálfan hnöttinn og alla leið til Japans.

Í umsögn dómnefndar segir að næm og fáguð tónlist Högna falli saumlaust að frásögn kvikmyndarinnar.

Íslenska dómnefndin er skipuð Margréti Örnólfsdóttur, Hilmari Erni Hilmarssyni, Hilmari Oddssyni og Pétri S. Jónssyni.

Eðvarð Egilsson hlaut verðlaunin í fyrra, fyrir tónlistina í heimildamyndinni Smoke Sauna Sisterhood.

Hörpu-verðlaunin voru stofnuð árið 2009 með það fyrir augum að vekja athygli á hæfileikafólki á sviði kvikmyndatónlistar á Norðurlöndum.

Ásamt Högna eru kvikmyndatónskáldin Christian Balvig (Danmörk), Ilari Heinilä (Finnland), Henrik Lörstad (Danmörk), Kåre Christoffer Vestrheim, Andréa Louise Horstad, Kristoffer Lo og Eivind Helgerød (Noregur) einnig tilnefnd til verðlaunanna.

Verðlaunin verða afhent í febrúar 2025 í Berlín.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR