[Stikla] Sketsaserían DRAUMAHÖLLIN á Stöð 2 undir lok árs

Sýningar á gamanþáttunum Draumahöllin hefjast á Stöð 2 í lok desember. Þættirnir sex eru skrifaðir af Sögu Garðarsdóttur, Steinþóri H. Steinþórssyni og Magnúsi Leifssyni, sem jafnframt leikstýrir.

Saga og Steinþór (Steindi jr.) fara með burðarhlutverkin en fjölmargir aðrir leikarar koma við sögu. Þetta er svokölluð sketsasería með fjölskrúðugu persónugalleríi, þar sem sumum karakterum bregður fyrir reglulega en öðrum sjaldnar. Tekist er á við algeng vandamál eins og að tala vitlaust, vera fjölþreifin, deyja áfengisdauða, kunna partýtrikk og koma með unnustu sína í steggjun. Allt saman aðstæður sem allir kannast við, segir í kynningu og vilja aðstandendur meina að margir karakterar Draumahallarinnar séu manneskjur sem við þekkjum. Vinir og kunningjar, fjölskyldumeðlimir og fyrrverandi makar. Allir eigi heima í Draumahöllinni, en sögurnar séu þó fullkominn hugarburður höfunda.

Leikarar voru hátt í 70 talsins en á meðal þeirra eru, auk Sögu og Steinþórs, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurjón Kjartansson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Anna Hafþórsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Helga Braga Jónsdóttir, Ylfa Ösp Áskelsdóttir og Friðgeir Einarsson.

Republik framleiðir fyrir Stöð 2. Framleiðendur hjá Republik voru þau Hannes Friðbjarnarson og Ada Benjamínsdóttir. Tökur fóru fram á vormánuðum og sá Víðir Sigurðsson um kvikmyndatöku. Brynja Skjaldardóttir sá um búninga. Förðunar- og gervameistari var Ragna Fossberg. Leikmyndahönnuður var Aron Martin Ásgerðarson. Agnar Friðbertsson tók upp hljóð. Klipping var í höndum Úlfs Teits Traustasonar. Tónlist sá Stefán Gunnlaugsson um. Brynjar Unnsteinsson sá um hljóðsetningu og litaleiðrétting var í höndum Luis Asciano hjá Trickshot.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR