Fyrir um ári síðan tilkynnti stjórn ÍKSA að Edduverðlaunum yrði skipt upp í kvikmyndaverðlaun annarsvegar og sjónvarpsverðlaun hinsvegar. Kvikmyndaverðlaun Eddunnar voru síðan afhent í apríl 2024. Varðandi sjónvarpsverðlaunin varð niðurstaðan að lokum sú að sjónvarpsstöðvarnar tækju það verkefni alfarið að sér án aðkomu ÍKSA. Vonir stóðu til að fyrsta sjónvarpsverðlaunaafhendingin yrði nú í haust eins og fram kom í tilkynningu stjórnar ÍKSA í desember í fyrra, en af því varð ekki.
Fulltrúar sjónvarpsstöðvanna hafa nú sent frá sér eftirfarandi tilkynningu sem lesa má á vef RÚV:
„Þrír ljósvakamiðlar standa að verðlaununum, Sjónvarp Símans, Sýn og RÚV og verða veitt verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt er á sjónvarpsstöðvum miðlanna.
Þessi nýju verðlaun eru tilkomin eftir að ákveðið var í samtali við ÍKSA að skilja að afhendingu verðlauna fyrir sjónvarpsefni frá afhendingu verðlauna fyrir kvikmyndir á hinni árlegu Eddu-verðlaunahátíð. Fyrr á þessu ári voru því í fyrsta sinn eingöngu afhent verðlaun fyrir kvikmyndir á Eddunni og er það í fyrsta sinn sem sá háttur hefur verið á frá stofnun ÍKSA fyrir 25 árum.
Sökum þess hve langt er liðið síðan verðlaun fyrir sjónvarpsefni voru síðast afhent þá verða afhent verðlaun fyrir lengra tímabil en verður að jafnaði. Þannig stendur til á þessari fyrstu sjónvarpshátíð að afhenda verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt var á árunum 2023 og 2024. Áætlað er að verðlaunin verði haldin árlega og að í framtíðinni verði þá afhent verðlaun fyrir efni sem frumsýnt er á hverjum sjónvarpsvetri.
Fyrir hönd sjónvarpstöðvanna;
Birkir Ágústsson framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum
Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV sjónvarps
Þóra Björg Clausen dagskrárstjóri Stöðvar 2.“