Í því sambandi má benda á að sjóðurinn hefur sætt miklum niðurskurði á undanförnum árum. Til stóð að halda því áfram, en nú hefur verið horfið af braut niðurskurðar.
Samkvæmt tillögunni verða framlög í Kvikmyndasjóð kr. 1.323,1 milljónir króna árið 2025 í stað 1.023,1 milljóna króna eins og lagt var til í framlögðu fjárlagafrumvarpi 2025.
Í fjárlögum ársins 2024 var framlagið 1.114,8 milljónir króna. með 100 milljóna króna viðbótarframlagi verða framlög 1.214,3 milljónir króna. Samkvæmt þessu mun hækkun framlaga milli ára nema 8,8%. Breytingatillöguna varðandi fjárlög 2025 má sjá hér, undir liðnum 18.30 Menningarsjóðir.
Breytingartillaga við aukafjárlög þar sem 100 milljónum króna er veitt í kvikmyndasjóð fyrir árið 2024 má sjá hér undir lið 3.
Samkvæmt heimildum Klapptrés verður engin breyting á fjárheimildum til endurgreiðslunnar. Gert er ráð fyrir að þær nemi 6.063,0 milljónum króna á næsta ári, eins og lagt var til í fjárlagafrumvarpi 2025.
Í frumvarpi til fjáraukalaga 2024 er einnig að finna tillögu að aukafjárveitingu til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á þessu ári, að upphæð 900 milljónir króna.
Ýmislegt fleira í farvatninu
Ljóst er að viðræður milli fagfélaganna og Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og hlutaðeigandi stjórnvalda, sem staðið hafa frá septembermánuði í kjölfar þess að fjárlagafrumvarp 2025 var lagt fram, hafa borið árangur. Aðilar úr kvikmyndagreininni hafa einnig á undanförnum vikum rætt við meðlimi fjárlaganefndar og aðra þingmenn, sem og forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna með það að markmiði að benda á mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar Kvikmyndasjóðs.
Verið er að ræða ýmislegt annað til að greiða fyrir frekari uppbyggingu kvikmyndagreinarinnar og mun vera von á einhverskonar útspili frá stjórnvöldum varðandi þau mál í næstu viku. Samkvæmt heimildum Klapptrés er þar um að ræða ýmis mál sem lúta að endurgreiðslunni og miða að því að það kerfi þjóni betur íslenskri kvikmyndagerð.
Meðal þess sem verið er að ræða er ekki þurfi lengur að draga framlag Kvikmyndasjóðs frá endurgreiðslustofni (slíkar reglur eru þegar til í ýmsum Evrópulöndum), að framleiðendur geti fengið helming endurgreiðslu þegar verk er hálfnað til að draga úr fjármögnunarkostnaði, að stuttmyndum verði einnig heimilt að sækja um endurgreiðslu, að 35% endurgreiðslan muni verða aðgengileg öllum verkefnum (ekki lengur 350 milljón króna gólf) og að sérstök hærri endurgreiðsla, 40%, verði fyrir barna- og fjölskyldumyndir til að hvetja til aukinnar framleiðslu á slíku efni. Tekið skal fram að þessar hugmyndir eru enn á viðræðustigi og því ekki ljóst sem stendur hvað úr verður.
Þá er af hálfu fagfélaga kvikmyndagerðar lögð mikil áhersla á að gert verði samkomulag til nokkurra ára um framlög í sjóðinn, líkt og gert hefur verið reglulega frá 1999, en var af einhverjum ástæðum ekki gert þegar Kvikmyndastefnan var lögð fram haustið 2020. Klapptré hlerar að þetta mæti skilningi af hálfu stjórnvalda en gerð slíks samkomulags verði þó að bíða nýrrar ríkisstjórnar.