spot_img

Íslenskar kvikmyndir sigursælar á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Lübeck

Þrjár íslenskar kvikmyndir fengu verðlaun á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Lübeck sem lauk í gær.

Rúnar Rúnarsson leikstjóri og Heather Millard framleiðandi fengu tvenn verðlaun á hátíðinni. Annars vegar Interfilm Kirkjuverðlaunin fyrir Ljósbrot og hins vegar var O (Hringur) valin besta stuttmyndin. Katla Njálsdóttir leikkona í Ljósbroti tók á móti báðum verðlaununum.

Þá hlaut heimildamynd Pamelu Hogan, Dagurinn þegar Ísland stöðvaðist, verðlaun sem besta heimildarmyndin. Myndina gerði hún í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur en hún var heimsfrumsýnd á stærstu heimildamyndahátíð Norður-Ameríku, Hot Docs, fyrr á árinu og má sjá í Bíó Paradís þessa dagana. Hrafnhildur veitti verðlaununum viðtöku.

Í ár voru fimm íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk sýnd á hátíðinni, sem er ein sú stærsta og mikilvægasta sem helguð er kvikmyndagerð á Norðurlöndum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR