Morgunblaðið um TOPP TÍU MÖST: Andstæður í bílamynd

Jóna Gréta Hilmarsdóttir skrifar í Morgunblaðið um Topp tíu möst eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur og segir hana meðal annars skemmtilega afþreyingu þar sem vel skrifuð og hnyttin atriði fái áhorfendur til að hlæja, en hún skilji ekki mikið eftir.

Jóna Gréta skrifar:

Topp 10 möst er íslensk bílamynd sem eins og Bakk (Gunnar Hansson og Davíð Óskar Ólafsson, 2015) og Blossi/81055 (Júlíus Kemp, 1997) myndu líklegast flokkast sem léttar gamanmyndir. Það sem gerir þessar bílamyndir spennandi eru persónurnar af því þær eru allar mjög brotnar og mannlegar. Aðalpersónurnar í Topp 10 möst, Mjöll (Tanja Björk Ómarsdóttir) og Arna (Helga Braga Jónsdóttir), eru þar ekki undanskildar. Strax í byrjun myndarinnar fæst skýr mynd af persónunum. Áhorfendur átta sig á að Arna er miðaldra kona sem starfar sem leikmyndahönnuður og listamaður. Það virðist samt ekki skila sér í veskið hennar því bréfunum frá Motus fjölgar stöðugt. Eitt kvöldið þegar Arna er á slæmum stað sendir hún skilaboð til fyrrverandi stjúpdóttur sinnar en fær kalt svar til baka og í kjölfarið spyr hún Google hver sé auðveldasta leiðin til að drepa sig.

Markmið aðalpersónunnar er skýrt frá byrjun, þ.e. að fremja sjálfsvíg. Þetta er mjög þungt málefni en handritshöfundi og leikstjóra myndarinnar, Ólöfu Birnu Torfadóttur, tekst að fjalla um það á fyndinn hátt án þess að gera lítið úr viðfangsefninu. Til dæmis er fyrsta tilraun Örnu til að fremja sjálfsvíg mjög fyndið atriði. Það er ótrúlega krefjandi verkefni en Ólöf Birna gerir það vel. Arna tekur lófafylli af svefnpillum, klæðir sig upp og leggst í baðið í von um að deyja með stíl líkt og Ophelia í málverki Johns Everetts Millais. Sú tilraun er jafn misheppnuð og líf hennar þar sem lyfin eru hægðalosandi og hún neyðist til að eyða kvöldinu á klósettinu.

Áhorfendur fá strax að sjá tvær ólíkar hliðar á Mjöll. Fyrsta skotið sýnir Mjöll að sauma út nafnið „Svana“ en áhorfendur komast síðar að því að það er nafnið á dóttur hennar. Hin hlið Mjallar sést þegar hún er að sauma útsauminn á púða en þá skvettir einhver grænni málningu yfir verkið. Mjöll snöggreiðist og ræðst á stúlkuna sem hellti málningunni. Áhorfendur átta sig þá á að hún er í fangelsi og það kemur ekki á óvart miðað við hversu snögg hún er grípa til ofbeldis. Þeir vita hins vegar líka að Mjöll á sér mjúka hlið enda myndu líklega ekki margir ofbeldisfullir glæpamenn una sér við það að sauma út nafn dóttur sinnar.

Þegar Mjöll fær þær fréttir að ný kærasta barnsföður hennar vilji ættleiða Svönu strýkur hún úr fangelsinu. Til að fela sig fyrir lögreglunni klifrar hún í skottið á bílnum hjá Örnu á meðan hún er stopp á bensínstöð. Í ljós kemur að Arna hefur búið til lista yfir það sem hún ætlar að gera áður en hún fremur sjálfsvíg og á þeim lista er m.a. það markmið að fylla út heilt bensínstöðvarvegabréf af stimplum.

Samband þeirra byrjar á því að Mjöll rænir Örnu og bílnum hennar. Í upphafi er Arna hrædd en þegar hún áttar sig á því að það versta í stöðunni væri að Mjöll dræpi þá hana þá hættir hún að vera hrædd, enda var það að drepa sig þegar á dagskrá hjá henni. Úr þessu verður til óvenjuleg vinátta milli tveggja ólíkra kvenna. Á yfirborðinu eru þær algjörar andstæður. Arna er of meðvirk til að leiðrétta afgreiðslumanninn þegar hann réttir henni pylsu með remúlaði sem hún bað einmitt um að fá að sleppa, en Mjöll er fljót að ráðast á þann sem móðgar eða truflar hana á einhvern hátt. Þær eiga ekkert sameiginlegt nema það að þær hafa engu að tapa. Arna á stutt eftir lifað og Mjöll fer aftur í fangelsi þegar ævintýri þeirra lýkur. Það er þó ekki ævintýrið sem gerir myndina áhugaverða heldur ferðalag persónanna sem hafa breyst eftir langa bíltúrinn og eru ekki á sama stað og í byrjun myndarinnar.

Af því að myndin er í raun fyrst og fremst keyrð áfram af persónunum þarf leikurinn að vera til fyrirmyndar. Báðar leikkonurnar, Helga Braga og Tanja Björk, eru sterkar í fyndnu atriðunum. Eitt atriðið stendur sérstaklega upp úr en það er þegar Arna og Mjöll ræna bensínstöð. Atriðið er einfaldlega ógleymanlegt og ætlar rýnir því ekki að spilla því fyrir lesendum. Frammistaða þeirra í erfiðum atriðum þar sem farið er á dýptina er hins vegar ekki eins sterk sem gerir það að verkum að myndin verður bara einn langur, fínn farsi en skilur því miður ekki mikið eftir. Önnur tæknileg atriði standa heldur ekki upp úr en þjóna sínum tilgangi, sem er að koma sögunni til skila. Að því sögðu þá er það þess virði að sjá Topp 10 möst því um er að ræða skemmtilega afþreyingu þar sem vel skrifuð og hnyttin atriði fá áhorfendur til að hlæja.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR