87 ára sögu kvikmyndahúss í Keflavík lýkur, fjölskyldan hefur rekið bíó í fimm kynslóðir

87 ára sögu Nýja bíós í Keflavík (Sambíóin Keflavík) lauk í gær. Nýja bíó var stofnað 1937, en opnaði í núverandi mynd 1944. Það var fyrsta kvikmyndahúsið í eigu fjölskyldunnar sem oft er kennd við Sambíóin og hefur nú rekið bíó í fimm ættliði.

Í samtali við Vísi í gær segir Guðný Ásberg Alfreðsdóttir, rekstrarstjóri kvikmyndahússins og einn afkomandi stofnendanna, að þetta séu sorgleg tímamót en að aðsóknin hafi verið orðin dræm. „Síðasta sýningin var í kvöld og síðustu gestirnir eru farnir, sorgmæddir,“ bætir hún við. Fyrst var greint frá lokuninni á vef Víkurfrétta.

Rekstur Nýja bíós hófst 1937 í svokölluðum Félagshúsum við Túngötu í Keflavík. Stofnendur voru hjónin Eyjólfur Ásberg og Guðný Jónasdóttir Ásberg. Þau byggðu síðar sérstakt kvikmyndahús við Hafnargötu 33, sem mun hafa opnað 1944.

Dóttir Eyjólfs og Guðnýjar, Elísabet Ásberg og eiginmaður hennar, Björn G. Snæbjörnsson, tóku við rekstrinum á sjötta áratug síðustu aldar. Börn þeirra, Guðný Ásberg og Eyjólfur Ásberg, tóku virkan þátt í starfseminni og gengu frá barnsaldri í öll störf. Eyjólfur Ásberg lést í voveiflegu bílslysi á Reykjanesbrautinni árið 1967, aðeins tvítugur að aldri. Hann var þá við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst meðfram því að sinna rekstri kvikmyndahússins með fjölskyldu sinni og var á leið milli Keflavíkur og Reykjavíkur með filmu þegar slysið varð.

Þá tóku Guðný Ásberg og eiginmaður hennar, Árni Samúelsson, við rekstri Nýja bíós. Fimmtán árum síðar, 1982, opnuðu þau síðan nýjan kafla í sögu íslenskra kvikmyndahúsa með Bíóhöllinni við Álfabakka í Reykjavík.

Bíóhöllin var fyrsta íslenska kvikmyndahúsið til að sýna reglulega glænýjar bandarískar kvikmyndir. Lengi hafði þá tíðkast að sýna kvikmyndir um ársgamlar og jafnvel eldri, þannig að þetta gerbreytti kvikmyndaupplifun Íslendinga.

Síðar fjölgaði kvikmyndahúsum fyrirtækisins og keðjan fékk nafnið Sambíóin. Nú rekur fyrirtækið kvikmyndahús í Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll og Akureyri (Nýja bíó). Árni og Guðný reka enn fyrirtækið og börn þeirra og barnabörn taka virkan þátt í starfseminni. þeirra á meðal eru fyrrnefnd Guðný Ásberg Alfreðsdóttir og faðir hennar, Alfreð Ásberg Árnason. Honum vil ég þakka fyrir flestar ljósmyndirnar hér að ofan sem og ýmsar sögulegar upplýsingar.

Fyrir tveimur árum opnuðu Sambíóin Kringlunni á ný eftir endurbætur og fékk einn salurinn nafnið Ásberg, likt og Klapptré greindi frá hér.

Árið 2007 skrifaði ég þessa samantekt í tilefni aldarfjórðungsafmælis Bíóhallarinnar/Sambíóanna.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR