Margrét skrifar á Facebook:
Er eðlilegt (og löglegt) að útlensk stórfyrirtæki hafi bein afskipti og áhrif á lagasetningu á Íslandi? Má það bara?
Eftir að hafa árum saman gefið tíma minn og orku í að berjast og tala fyrir hagsmunum íslenskrar kvikmyndagerðar, m.a. setið mánuðum saman í vinnuhópi á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins við mótun Kvikmyndastefnu, er nett niðurlægjandi að uppgötva að allt samtalið, og fundirnir, og ferðatíminn og fyrirhöfnin… er lítið annað en fjarvistarsönnun stjórnvalda, svo þau geti haldið því fram að fullt samráð hafi verið haft við hagaðila innan kvikmyndagerðarinnar.
Það væri mun sársaukaminna ef það væri einfaldlega viðurkennt og uppi á borðum að ákvarðanirnar séu í raun teknar í einkasamtölum milli útvaldra. Okkar kröftum og tíma væri betur varið í eitthvað annað en aumkunarverð vindhögg sem skila litlu öðru en raðvonbrigðum, þegar alvörudílarnir eru undirritaðir í (nú reyklausum) bakherbergjum.
Lilja Alfreðsdóttir þrætir fyrir í fjölmiðlum að síendurtekinn niðurskurður á Kvikmyndasjóði síðustu ár sé niðurskurður. Í dag las ég andsvar ráðherrans við grein Björns Brynjúlfs á visir.is og rennur blóðið til skyldunnar að bregðast við málflutningi hennar þar. Björn segir Lilju fara vísvitandi með rangt mál þegar hún heldur því fram að kvikmyndagerðarfólk rugli stöðugt saman niðurskurði við það að sérstakri Covid innspýtingu hafi ekki verið haldið áfram eftir Covid.
Við erum ekki alveg svona vitlaus. Okkur datt aldrei í hug að Covid viðbótin yrði veitt til frambúðar. Við erum bara ekki til í að samþykkja það að Covid framlagið skyldi skyndilega blása svona rosalega út eftirá.
Máli sínu til stuðnings bendir Lilja greinarhöfundi á að þetta hafi komið skýrt fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu, 8. október 2020:
,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘
Það er ekki stakt orð um Covid í margumræddri Kvikmyndastefnu. Samt sem áður splæsir ráðuneytið hér saman Kvikmyndastefnunni og „tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar“, án þess að það eigi sér nokkra raunverulega stoð.
Kvikmyndastefnan fjallar um aðgerðir til uppbyggingar og eflingar íslenskrar kvikmyndagerðar 2020–2030.
Stefnumótunarvinnunni lauk um það bil sem heimsfaraldurinn skall á, eða í mars 2020, þó unnið hafi verið áfram í textanum einhverja mánuði á eftir. Þess vegna, og eðlilega, er hvergi minnst einu orði á Covid eða heimsfaraldur eða „tímabundið fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar“ –einfalt gúggl er allt sem þarf til að sannreyna það. Þetta tímabundna fjárfestingarátak er að verða eins og langvarandi Covid eftirköst sem íslensk kvikmyndagerð ætlar bara aldrei að losna við.
Lilja hefur undanfarið ítrekað bent á að niðurskurðarkrafa sé þvert á alla sjóði. Hún mætti gjarnan færa sannfærandi rök fyrir því hvers vegna Kvikmyndasjóður þarf að þola harðari niðurskurð en aðrir sjóðir.
Boðuðum niðurskurði er sjálfsagt ætlað að líta út eins og sparnaðaraðgerð en ríkið hafnar á sama tíma framtíðartekjum sem það annars fengi af fjárfestingu sinni, sem sýnt hefur verið ítrekað fram á að skilar sér margfalt til baka í ríkiskassann.
Ég vona að Hollywood splæsi í símtal og útskýri að það sé slæm hagstjórn að kasta krónunni fyrir aurana.
Eða dollaranum fyrir sentin.