Bréfið er svohljóðandi:
Reykjavík 23. október 2024
Kæri Benedikt S. Benediktsson og Samtök verslunar og þjónustu.
Í tilefni athugasemdar Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis okkar við fjárlaganefnd langar mig að setja niður nokkra punkta og útskýra það sem virðist vera grundvallarmisskilningur samtakanna á eðli starfsemi Bíó Paradísar – Heimilis kvikmyndanna.
Misskilningurinn virðist einkum birtast í fjórum atriðum. Starfsemi Bíó Paradísar, umfangi opinbers stuðnings við þá starfsemi, rekstrarformi og sjálfbærni Bíó Paradísar og umsókn til fjárlaganefndar. Hér mun ég fara yfir þetta lið fyrir lið.
Starfsemi Bíó Paradísar – Heimilis kvikmyndanna
Bíó Paradís er sjálfseignarstofnun í eigu fagfélaga kvikmyndagerðarfólks sem hefur það markmiði að efla bæði kvikmyndamenningu og fræðslu á Íslandi. Áður en Bíó Paradís kom til sögunnar var ekki til kvikmyndahús sem sýndi flóruna í kvikmyndagerð; það var enginn vettvangur fyrir alþjóðlegar listrænar kvikmyndir, íslenskar heimildarmyndir, klassískar kvikmyndir, stuttmyndir, tilraunamyndir og íslenska kvikmyndaarfinn. Einnig var ekkert kvikmyndahús sem stóð sérstaklega fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og ungmenni, og stóð fyrir reglulegum kvikmyndaviðburðum og hátíðum.
Afhverju var enginn vettvangur á landinu fyrir slíka starfsemi? Jú, afþví að hún er ekki sjálfbær. Einsog flest önnur menningarstarfsemi, þá þarfnast hún stuðnings hins opinbera. Það sama gildir um listasöfn, leikhús og önnur menningarhús. Slíkt kvikmyndamenningarhús gæti aldrei verið rekið á sama grundvelli og önnur kvikmyndahús á landinu, og það held ég að flestir hljóti að skilja. Slík kvikmyndahús starfa í öllum löndum í kringum okkur og eru oft kölluð „Cinemateque“. Þetta eru menningarhús sem einblína á menningarlegt gildi kvikmynda umfram markaðsleg gildi og eru rekin á menningarlegum forsendum.
Opinber stuðningur við starfsemi Bíó Paradísar
Það er ekki rétt hjá SVÞ að Bíó Paradís hljóti 60 mkr frá borginni í rekstur hússins. Samkvæmt samningum við Kvikmyndamiðstöð fáum við 25 mkr á ári fyrir okkar starfsemi, og frá borginni fáum við 32 mkr á ársgrundvelli. Það eru samtals 57 mkr. Þetta er hægt að sjá í ársreikningnum okkar sem fylgir hér með og er öllum opinber. Það kemur fram að á síðasta ári fengum við 27 mkr frá Kvikmyndamiðstöð, en það er vegna þess að við fengum 2 mkr í styrk fyrir Alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð sem við sóttum sérstaklega um, en það er fyrsti kvikmyndaviðburðurinn sem er sérstaklega ætlaður börnum og ungmennum á Íslandi.
Þrátt fyrir mjög umfangsmikla starfsemi, þá er Bíó Paradís með sjálfbærustu menningarhúsum landsins. Húsið er rekið að langmestu leyti fyrir sjálfsaflafé, eða 78%, (200 mkr) og þiggur um 22% (57 mkr) af sínum heildarrekstrarkostnaði frá ríki og borg fyrir að halda uppi fjölbreyttu fræðslu- og menningarstarfi allt árið um kring.
Fyrir þennan stuðning ríkis og borgar býður Bíó Paradís 8000 grunnskólanemum og 3000 framhaldsskólanemum upp á kennslu í kvikmyndalæsi ár hvert, auk þess sem 5000 börn um allt land fá að njóta skólasýninga á Barnakvikmyndahátð þeim að kostnaðarlausu. Við höldum úti Þýskum kvikmyndadögum, Evrópskum kvikmyndamánuði, Franskri kvikmyndahátíð, Stockfish kvikmyndahátíðinni auk fjölda minni kvikmyndaviðburða ár hvert í samstarfi við sendiráð og menningarfélög ýmissa landa.
Við sýnum allar íslenskar heimildamyndir og kvikmyndir, auk þess sem við sýnum vandaða dagskrá úr Kvikmyndasafni Íslands í hverjum mánuði.
Við bjóðum uppá frábæra dagskrá í hverri viku af klassískum kvikmyndum – annars vegar föstudagspartísýningar og svo Svarta sunnudaga. Þetta hefur svo rutt brautina fyrir önnur kvikmyndahús sem fylgt hafa í kjölfarið, en Bíó Paradís hefur verið að þróa þessar sýningar frá því að húsið opnaði fyrir 14 árum.
Daglega sýnum við rjómann af alþjóðlegum verðlaunakvikmyndum sem við neyðumst til að kaupa dreifingarrétt fyrir á Íslandi af því þessar myndir eru ekki keyptar til sýninga á Íslandi. Af hverju ætli það sé? Jú, það er vegna þess að útgáfa þessara mynda er ósjálfbær á svona litlum markaði sem Ísland er. En við leitum styrkja víða erlendis til að gefa út þessar myndir, meðal annars frá MEDIA áætlun Evrópusambandsins og fleiri sjóðum. Þessa erlendu styrki er hægt að sjá í ársreikningnum okkar undir „aðrir styrkir“ og það má segja að fyrir þá fjárfestingu sem ríki og borg setja í starfsemi Bíó Paradísar þá komum við á móti með 6% (15 mkr) í formi erlenda styrkja við starfsemina.
Með erlendum stuðningi hefur okkur tekist að gera útgáfu alþjóðlegra listrænna kvikmynda nánast sjálfbæra á Íslandi. Ef Bíó Paradís gæfi þessar myndir ekki út á Íslandi, þá væri engin leið fyrir íslenska áhorfendur að nálgast stærstu verðlaunakvikmyndir hvers árs nema ólöglega. Hvað þá stærstu kvikmyndirnar frá nágrannalöndunum sem sýnum reglulega. Það að Bíó Paradís kaupi þessar myndir og sýni þær, er líka stórt aðgengismál fyrir Íslendinga, sem annars hefðu aðeins aðgang að kvikmyndum sem einskorðast við Hollywood. En Bíó Paradís hefur einnig staðið fyrir því að sýna nýjar pólskar kvikmyndir reglulega fyrir þá fjölmörgu Pólverja sem búa hér og valdið algerri byltingu í aðgengi fólks á Íslandi að allskonar kvikmyndum og kvikmyndamenningu.
Þannig gefur Bíó Paradís út á annan tug listrænna kvikmynda á ári, sýnir hundruðir kvikmynda, tekur á móti hátt í 20 þúsund börnum í kvikmyndafræðslu ár hvert og stendur fyrir á þriðja tug stærri og minni kvikmyndaviðburða hvert ár sem það starfar.
Einsog þið sjáið af þessari upptalningu, þá eru ríki og borg að fá heilmikið fyrir sína fjárfestingu í Bíó Paradís og almenningur nýtur góðs af.
Rekstrarfom Bíó Paradísar
Bíó Paradís er sem áður segir sjálfseignarstofnun. Það þýðir að ef það er hagnaður á rekstri starfseminnar þá er það nýtt í starfsemina sjálfa. Það er ekki greiddur út hagnaður til eigenda félagsins og starfsemin er ekki rekin í gróðaskyni heldur í þágu markmiða félagsins, sem er að efla kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi.
Þess má geta að Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís uppfyllir öll skilyrði skattsins til að teljast sem almannaheillafélag og stefnir á að skrá félagið sem slíkt á árinu.
Þó Bíó Paradís njóti nú ágæts styrkhlutfalls sem er mjög lágt í samanburði við allar aðrar menningarstofnanir landsins, þá hefur það oft verið miklu lægra. Og það hefur verið áskorun að reka húsið, með allri sinni menningarstarfsemi, í húsnæði með jafnmikla viðhaldsþörf og húsnæði Bíó Paradísar er. Bíó Paradís hefur engu að síður lyft grettistaki í því að koma húsinu í ásættanlegt horf og gera það aðgengilegt hreyfihömluðum og fjölbreyttari hópi fólks en sem sækir vanalega kvikmyndahús.
Sjálfbærni vs. ósjálfbærni
Einsog áður hefur verið vikið að, er starfsemi Bíó Paradísar í eðli sínu ósjálfbær, enda hefði aldrei verið þörf á að stofna það til að byrja með hefði slík starfsemi verið sjálfbær á markaðslegum forsendum.
Þökk sé hinu mikla átaki við það að koma húsnæði Bíó Paradísar í ásættanlegt horf, höfum við sem rekum Bíó Paradís orðið fyrir mikilli vitundarvakningu í aðgengi ýmissa hópa að menningu og staðið fyrir nokkrum spennandi nýsköpunarverkefnum í þeim málum.
- Við höfum setið námskeið með Alzheimer samtökunum um hvernig þjónusta skuli einstaklinga með heilabilun og höldum núna reglulegar bíósýningar sniðnar að þeirra þörfum.
- Við höldum sérstakar sýningar á miðvikudögum í samstarfi við ýmsa hópa til að rjúfa félagslega einangrun þeirra sem eru ekki að vinna, eru í endurhæfingu eða eru komnir á eftirlaun.
- Við höfum boðið reglulega uppá skynvænar sýningar fyrir skynsegin fólk þar sem aðstæður henta þeirra þörfum og öllu áreiti er stillt í hóf.
- Við höfum lagt tónmöskva í alla salina okkar til að þeir sem eru með heyrnartæki geti fengið hljóðið beint í tækin.
- Við höfum útbúið sjónlýsingar á tveimur íslenskum kvikmyndum sem aðgengilegar eru öllum í sérstöku smáforriti í snjallsíma. Sjónlýsinguna er hægt að nota á sýningum í hvaða bíóhúsi sem er og er algjör bylting fyrir sjónskerta og blinda í aðgengi að kvikmyndum.
Og fleiri aðgerðir eru á leiðinni.
Engar af þessum aðgerðum eru sjálfbærar og getum við því eðli málsins samkvæmt ekki framkvæmt allt sem okkur dreymir um að gera, en við erum með margar mjög góðar hugmyndir og ýmislegt í viðhaldi hússins sem gott væri að framkvæma þegar efni standa til.
Umsókn um framlag frá fjárlaganefnd
Og það er vegna þessara áherslna sem Bíó Paradís óskar eftir stuðningi fjárlaganefndar í ár. Þetta kemur allt fram í umsókn okkar til nefndarinnar. Við viljum opna húsið fyrir fólki af öllu tagi og standa fyrir kvikmyndamenningu sem allir geta tekið þátt í.
Þessi markmið eru í samræmi við landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-27 en landsáætlun á að tryggja farsæla innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðs fólks.
Fjárlaganefnd er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort það telur erindi Bíó Paradísar vera þess eðlis að það verðskuldi náð fyrir augum nefndarinnar – en hið einlæga erindi okkar snýst um að skapa kvikmyndamenningarhús sem hugsar út fyrir kassann í aðgengi og hefur nú þegar valdið vitundarvakningu á Íslandi varðandi aðgengi fatlaðs fólks og jaðarhópa að menningu.
Eigendum annarra kvikmyndahúsa á Íslandi er líka í sjálfsvald sett hvernig þeir haga sínum rekstri og dreymi þá um að reka sín hús á menningarlegum grundvelli einsog Bíó Paradís, þá er þeim frjálst að sækja um stuðning til þess hér.
Niðurstaða
Það er því ekki hægt að tala um mismunun í þessu samhengi, þegar borin er saman starfsemi Bíó Paradísar og annarra kvikmyndahúsa. Bíó Paradís er ekki í samkeppni við önnur kvikmyndahús á Íslandi enda er starfsemi hússins byggð upp á dagskrá sem var ekki í boði í öðrum kvikmyndahúsum á Íslandi, vegna ósjálfbærni. Jafnræðis er gætt þar sem öllum kvikmyndahúsum er frjálst að sækja um styrki til að reka kvikmyndasýningar á menningarlegum grundvelli.
Bíó Paradís deilir áhyggjum annarra rekstraraðila á minnkandi aðsókn að kvikmyndahúsum. Það eru alþjóðlegar breytingar að verki sem rekja má til streymisveita, samfélagsmiðla, breytinga í neysluhegðun og mikilla samfélags- og tæknibreytinga sem ekki verða raktar nánar hér. Vandamálið er alþjóðlegt og einskorðast ekki við Ísland. Kvikmyndahús fóru illa út úr COVID á Íslandi og Bíó Paradís fékk ekki, frekar en önnur kvikmyndahús, sérstakan COVID styrk. Mikið óréttlæti felst í því að aðgöngumiðar í kvikmyndahús beri 24% VSK.
Ekkert af ofangreindum vandamálum kvikmyndahúsa á Íslandi má rekja til reksturs Bíó Paradísar. Stuðningur við rekstur Bíó Paradísar mun ekki koma niður á tekjumöguleikum annarra kvikmyndahúsa og hefur ekki gert það hingað til.
Bíó Paradís hefur þvert á móti auðgað kvikmyndamenningu landsins sem hin kvikmyndahúsin njóta beinlínis góðs af, bæði með kvikmyndalæsikennslu í öllum grunnskólum og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu sem skila sér svo í bíóþyrstum kvikmyndaunnendum í öllum bíóhúsum – og líka með vitundarvakningu meðal almennings um hversu dásamlegt listform kvikmyndin er. Áhrifin skila sér líka í meiri áhuga almennings á kvikmyndum yfirhöfuð og hversu mikilvægt það er að sjá kvikmyndir í bíó. Bíó Paradís hefur sem áður segir, rutt brautina fyrir önnur hús að sýna reglulega klassískar kvikmyndir í bíó sem þau njóta nú góðs af.
Og þótt Bíó Paradís hljóti sérstakan stuðning til að bjóða fatlaða og jaðarhópa velkomna á kvikmyndadagskrá sem önnur kvikmyndahús hafa hvorki áhuga né vilja til að bjóða uppá, þá mun það ekki hafa neitt nema jákvæð áhrif á þeirra tekjur.
Því eina leiðin uppúr stöðnun og krísu er nýsköpun og ég hvet íslenska kvikmyndahúsaeigendur að hugsa út fyrir kassann í því hvernig þeir vilji þjónusta sína viðskiptavini, hvar tækifærin liggja í viðburðahaldi og nýjum leiðum til að skapa meiri eftirspurn eftir því sem þau hafa uppá að bjóða. Vandamál kvikmyndahúsanna liggja ekki í rekstri Bíó Paradísar heldur þvert á móti – tækifærin eru í því að leggja rækt við kvikmyndamenninguna og bjóða uppá eitthvað nýtt – og þvílík tækifæri sem eru fólgin í því að sýna kvikmyndir frá Hollywood sem njóta yfir 90% markaðshlutdeildar á Íslandi, fylla alltaf öll sætin yfir aðsóknarmestu kvikmyndir ársins ár hvert og njóta markaðslegra yfirburða hvernig sem á það er litið. Það eru tækifæri í því.
Ég vil í ljósi þessa misskilnings, og þar sem ekkert af ofangreindum umkvörtunarefnum Samtaka verslunar og þjónustu stenst skoðun, biðja ykkur um að vinsamlegast fjarlægja ummæli ykkar við umsókn okkar til fjárlaganefndar, enda byggir hún á grundvallarmisskilningi og rökleysu.
Vinsamlegast,
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar